Innlent

Beiðnum um leit að börnum og ungmennum fjölgaði í september

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Beiðnum um leit að týndum börnum og unglingum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu í september miðað við mánuðinn á undan. 
Beiðnum um leit að týndum börnum og unglingum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu í september miðað við mánuðinn á undan.  Vísir/Vilhelm

Talsverð aukning varð á beiðnum um leit að börnum og ungmennum sem bárust lögreglu í september en mánuðina þrjá á undan. Hegningarlagabrotum fækkaði hins vegar á milli mánaða. 

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir septembermánuð. 808 hegningarlagabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í september og fækkaði þeim nokkuð á milli mánaða. 

Aukning varð þó í einhverjum flokkum, til dæmis fjölgaði tilkynningum um þjófnað sem og tilkynningum um innbrot á milli mánaða. Það sem af er ári hafa borist um níu prósent fleiri tilkynningar um þjófnað en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan. 

Þá bárust alls 106 tilkynningar um ofbeldisbrot í september og beindust níu þeirra að lögreglumönnum. Fleiri slík tilvik hafa ekki verið skráð síðan í maímánuði síðasta árs. 

Heimilisofbeldistilkynningar voru svipað margar og bárust í ágúst en alls voru 56 tilkynningar um slíkt skráðar í september. Það sem af er ári hafa borist um ellefu prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þrjú ár á undan. 

Færri umferðarlagabrot en síðustu þrjú ár

Alls bárust 21 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í september og fjölgaði þessum beiðnum töluvert miðað við fjölda beiðna síðustu þrjá mánuði á undan.

Tilkynningum um eignarspjöll fjölgaði einnig milli mánaða sem og tilkynningum um nytjastuld á vélknúnum ökutækjum. 

Fíkniefnalagabrotum sem skráð voru hjá lögreglu fjölgaði á milli mánaða og voru þrjú stórfelld fíkniefnabrot skráð í síðasta mánuði hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna voru álíka margar og í ágúst en tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur fjölgaði á milli mánaða. 

Þá voru 650 umferðarlagabrot skráð hjá lögreglunni, að aðskildum þeim sem náðust á hraðamyndavélum. Það sem af er ári hafa verið skráð um 29 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.