Innlent

Eitruð könguló barst á heimili í Reykjavík með vínberjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Köngulóin sem Náttúrufræðistofnun barst hafði hreiðrað um sig í vefhjúp inni í rauðum vínberjaklasa og var þar með eggjasekk sem sjá má á myndinni.
Köngulóin sem Náttúrufræðistofnun barst hafði hreiðrað um sig í vefhjúp inni í rauðum vínberjaklasa og var þar með eggjasekk sem sjá má á myndinni. Náttúrufræðistofnun Íslands

Eitruð könguló sem á rætur að rekja til Norður-Ameríku barst til Reykjavíkur í september í rauðum vínberjaklasa. Sérfræðingur er heillaður af dýrinu enda séu fá kvikindi jafn aðdáundarverð og köngulær.

Erling Ólafsson skordýrafræðingur heldur úti Facebook-síðunni Heimur smádýranna. Þar segir hann frá köngulónni og leggur áherslu að hann vilji ekki hrella mannskapinn með áframhaldandi umfjöllun um köngulær. Ein hafi þó borist Náttúrufræðistofnun nýlega.

„Margir kannast við enskt heiti hennar brown recluse. Ég hef valið henni íslenskt heiti, fiðlukönguló, vegna fiðlulaga merkis á baki höfuðbols. Þá tegund höfðum við á NÍ ekki áður fengið í hendur en könnuðumst þó við hana því af henni fer illt orðspor.“

Í heimkynnum tegundarinnar í Norður-Ameríku óttist fólk bit hennar.

„Segja má að hún sé á pari við ekkjuköngulær því fágæt bit hennar geta reynst ámóta varasöm, jafnvel banvæn í undantekningartilvikum þó. Eituráhrifa gætir einna helst í húð en eitrið getur valdið frumudrepi sem myndar stór opin sár.“

Einnig geti fólk orðið illa veikt vegna áhrifa á innri líkamsstarfsemi.

„Að vanda er ungum börnum, gamlingjum og fólki með laskað ónæmiskerfi hættast við. Sjaldnast eru áhrifin þó alvarleg og því fer fjarri að köngulóin sé árásargjörn.“

Nánar um köngulóna á vef Náttúrufræðistofnunar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.