Menning

Elif Shafak hand­hafi Al­þjóð­legra bók­mennta­verð­launa Hall­dórs Lax­ness

Tinni Sveinsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Elif Shafak rithöfundur.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Elif Shafak rithöfundur. Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti í dag rithöfundinum Elif Shafak alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík. Að afhendingu lokinni flutti Elif Shafak fyrirlestur Halldórs Laxness.

Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru veitt en það var gert í fyrsta sinn á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2019 þegar Ian McEwan hlaut verðlaunin.

Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma.

Forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið, útgefandi Halldórs Laxness á Íslandi standa að verðlaununum.

Verðlaunin eru veitt á á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem haldin er annað hvort ár. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Eliza Reid forsetafrú, Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Ian McEwan fyrsti handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness.

Tvær skáldsögur Shafak hafa komið út á íslensku, Heiður í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur (2014) og 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld í þýðingu Nönnu Þórsdóttur (2021).


Tengdar fréttir

Fetar eigin slóð

Rithöfundurinn heimsfrægi Ian McEwan ræðir í viðtali um nýjustu bækur sínar, hætturnar sem heimurinn býr við í dag og dramatíska fjölskyldusögu sína.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.