Fjölskylda á Melteignum í Keflavík í Reykjanesbæ er dýrasjúk enda með nokkur tvo risa ketti á heimilinu, tvo hunda og þrjú börn. Kötturinn Skjöldur vekur mikla athygli fyrir stærð sína enda miklu stærri en hundarnir á heimilinu. Skjöldur er af Maine Coon kyni.
„Þetta er líka með stærstu kisutegundum í heiminum af heimilisköttum, hann er mjög hræddur við að vera úti því hann er inni kisi. Þetta eru risa stórir kettir en með pínulítið hjarta,“ segir María Ísrún Hauksdóttir, eigandi Skjaldar.
María segir að Skjöldur sé einn metri og fjórir sentímetrar að lengd og hann sé frá 10 til 12 kílóum á þyngd.

„Við köllum hann stundum Skúli Fúli því ég segi það ef hann væri manneskja væri hann alltaf tuðandi en ann er rosalega skemmtilegur og mikil keligrís.“
En hvernig er að vera með hunda og ketti saman á heimili?
„Það gengur rosalega vel, sérstaklega með þessa tegund af köttum því þeir eru mjög hrifnir af hundum. Þau leika sér öll saman og kúra saman, já, þetta gengur ótrúlega vel,“ segir María og bætir við.
„Ég segi stundum í gríni við fólk þegar það kemur í heimsókn að það verði að borga 50 krónur inn því ég sé með lítinn húsdýragarð hérna inni, það þurfi að borga fyrir að heimsækja mig. En mér finnst þetta rosalega gaman, mér finnst æðislegt að vera með svona mikið af dýrum en maður þarf náttúrulega að hugsa um þeim. Þetta er áhugamál, maður þarf að hugsa um þau, gefa þeim það besta að borða, fara með þau út að ganga, kemba og greiða og leika. Sumir fara í golf, ég á fullt af dýrum.“
