Innlent

Ekki úti­lokað að bólu­setning hafi raskað tíða­hring kvenna í nokkrum til­vikum

Eiður Þór Árnason skrifar
Lyfjastofnun og embætti landlæknis tilkynntu 6. ágúst að ákveðið hafi verið að kalla til óháða aðila til að rannsaka tilfellin.
Lyfjastofnun og embætti landlæknis tilkynntu 6. ágúst að ákveðið hafi verið að kalla til óháða aðila til að rannsaka tilfellin. Vísir/vilhelm

Ekki er hægt að útiloka með óhyggjandi hætti tengsl nokkurra tilfella blæðinga í kringum tíðahvörf við bólusetningu gegn Covid-19. Hið sama á við um hluta tilfella sem varða óreglulegar og langvarandi blæðingar.

Af þeim voru tvær tilkynningar tengdar blæðingum í kringum tíðahvörf og fimm óreglulegum og/eða langvarandi blæðingum.

Þetta er meginniðurstaða nefndar sem rannsakaði tilkynnt tilfelli röskunar á tíðahring í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Telur nefndin tengsl á milli bólusetningar og fósturláta hér á landi ólíkleg. Hún skilaði niðurstöðum sínum til Lyfjastofnunar og landlæknisembættisins á dögunum.

Markmið rannsóknarinnar var að leita skýringa á orsökum og veita þeim konum sem um ræðir stuðning og viðeigandi ráð. Frá þessu er greint á vef Lyfjastofnunar.

Tilkynningar Möguleg orsakatengsl við bólusetningu Ólíkleg orsakatengsl við bólusetningu Heild
Alvarlegar 0 5 5
Kringum tíðahvörf 2 9 11
Langvarandi blæðingar 5 22 27
Samtals 7 36 43Þarfnast frekari athugunar

Nefndin áréttar að í öllum tilvikum þyrfti frekari athugun og rannsókn læknis að eiga sér stað til að útiloka þekktar ástæður slíkra einkenna. Þá sé mjög erfitt að meta slík tengsl þar sem ekki liggja fyrir faraldsfræðilegar upplýsingar um sambærileg einkenni í þýðinu. Nefndin telur ólíklegt að orsakasamhengi sé á milli fimm tilkynninga um alvarlegar aukaverkanir og bólusetningar. 

Þegar nefndin hófst handa við skoðun á tilkynntum tilfellum í byrjun ágúst hafði Lyfjastofnun borist tæplega 400 tilkynningar með einkennum sem vörðuðu raskanir á tíðahring í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Í dag hafa Lyfjastofnun borist um 800 tilkynningar.

Ekki verið sýnt fram á tengsl bóluefna og blæðingaóreglu

Fram kemur í niðurstöðunum að milliblæðingar og blæðingaóregla sé algengt vandamál hjá konum á frjósemisskeiði. Vegna þess sé það fyrirsjáanlegt að þegar svo stór hluti þessa aldurshóps sé bólusettur á nær sama tíma sé óhjákvæmilegt að einhverjar þessara kvenna fái óreglu á blæðingar á sama tímabili og bólusetning á sér stað.

Að sögn nefndarinnar hefur Lyfjastofnun Evrópu gefið út að ekki hefur verið hægt að sýna fram á tengsl bóluefna gegn Covid-19 og blæðingaróreglu.

Nefndin fjallar um að ekki liggi enn fyrir vísindalegar niðurstöður sem hafa sýnt fram á samhengi milli Covid-19 bólusetningar og óreglulegra blæðinga kvenna. Hins vegar hafi töluvert borið á umræðu um möguleika slíkra tengsla á samfélagsmiðlum og í tilkynningum til Lyfjastofnunar. 

„Þó virðist því miður vera lítið um rannsóknir þar sem bólusetningar eða aðrir mögulegir áhættuþættir hafa verið ítarlega skoðaðir með blæðingaóreglu kvenna sem meginviðfangsefni.“

Álag tengt heimsfaraldrinum mögulega haft áhrif

Vísað er í niðurstöður einnar rannsóknar frá Kína á tæplega 200 konum um möguleg áhrif Covid-19 sýkingar. Niðurstöðurnar eru á þann veg að um fjórðungur þeirra varð fyrir breytingum á blæðingum í allt að tvo mánuði eftir að sýkingu lauk. Nær allar höfðu náð bata að þeim tíma liðnum.

Jafnframt segir í skýrslu nefndarinnar að nýlegar niðurstöður rannsóknar gefi vísbendingu um möguleg tengsl séu á milli álags tengdum heimsfaraldri Covid-19 og blæðingaóreglu kvenna. Er þetta í samræmi við eldri rannsóknir sem sýna sterkari fylgni við kvíða, aukið álag og þunglyndi meðal kvenna á tímum heimsfaraldra, sem eru allt áhættuþættir fyrir blæðingaóreglu meðal kvenna.

„Það er mat nefndarinnar að í flestum tilvikum sem varða tilkynningar umblæðingaóreglu til Lyfjastofnunar, sé ekki hægt að sýna fram á að tengsl við bólusetningar. Í mörgum tilvikum voru aðrar þekktar orsakir fyrir blæðingaóreglu til staðar sem líklegri skýring. Einnig er bent á að tilvikin séu fá svo að ekki sé hægt að útiloka tengsl með vissu og bíða verði upplýsinga úr stærri þýðum.“

Ráðleggur nefndin að að konur leiti læknis ef þær upplifi blæðingaóreglu, miklar blæðingar eða önnur ný einkenni tengd tíðahring sem ganga ekki yfir á nokkrum dögum. Sömuleiðis sé mikilvægt að konur sem fá blæðingu á breytingaskeiði leiti til læknis.

Nánar er fjallað um niðurstöður rannsóknarinnar á vef Lyfjastofnunar

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.