Aron Einar og félagi hans úr landsliðinu 2010 sætir lögreglurannsókn.Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir
Ákvörðun um að Aron Einar Gunnarsson yrði ekki í landsliðshóp Íslands fyrir komandi leiki í undankeppni HM 22 var tekin áður en kæra á hendur honum lá fyrir. Þetta staðfestir Ómar Smárason, samskiptastjóri KSÍ, í samtali við fréttastofu. Hann segir sambandið fyrst hafa heyrt af kærunni í fjölmiðlum í gær.
Líkt og greint hefur verið frá var Aron Einar ekki valinn í landsliðshópinn sem mætir Armeníu og Liechtenstein síðar í þessum mánuði. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið og sagði að um væri að ræða útilokunarmenningu KSÍ og að sögusagnir einar og sér hafi ráðið valinu.
Lögreglurannsókn á hendur honum og öðrum knattspyrnumanni, fyrrverandi landsliðsmanni, er hins vegar hafin en kæran snýr að meintu kynferðisbroti þeirra tveggja gagnvart íslenskri konu í Kaupmannahöfn árið 2010.
Ekki hafa fengist upplýsingar frá KSÍ um máli það sem af er degi. Geir Þorsteinsson, sem var formaður KSÍ, á þeim tíma segist í samtali við fréttastofu ekkert heyrt af málinu fyrr en í fjölmiðlum nú nýverið og þá hefur Ólafur Jóhannesson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu. Vanda Sigurgeirsdóttir hyggst taka afstöðu til málsins eftir að hún verður formlega kjörin formaður KSÍ á aukaþingi sambandsins klukkan 11 á morgun.
Tveir knattspyrnumenn sæta lögreglurannsókn vegna kæru konu sem sakar þá um að hafa brotið gegn henni í Kaupmannahöfn árið 2010. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er annar þeirra en hann fór í gær sjálfur fram á að gefa skýrslu hjá lögreglu.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.