Lífið

Helstu hip-hop-stjörnur heims troða upp í hálfleik Ofurskálarinnar

Árni Sæberg skrifar
Ljóst er að fáum muni leiðast í hálfleik Ofurskálarinnar.
Ljóst er að fáum muni leiðast í hálfleik Ofurskálarinnar. Twitter/Pepsi

Einvalalið tónlistarfólks mun sjá um tónleikana í hálfleik á 56. Ofurskálinni sem er hápunktur ársins í amerískum fótbolta. Dr. Dre, Snoop Dogg, Eminem, Mary J. Blige og Kendrick Lamar munu skemmta þeim tugum, ef ekki hundruðum, milljóna áhorfenda sem horfa á Ofurskálina á meðan leikmenn hvíla sig í hálfleik.

Óhætt er að fullyrða að hálfleiksatriði Ofurskálarinnar laði marga að skjánum þegar keppt er um stærsta hnossið í amerískum fótbolta. Jafnvel fleiri en fótboltinn sjálfur.

Í ár ætla skipuleggjendur leiksins að tjalda öllu til og fá fimm goðsagnir úr hip-hop senunni til að troða upp í hálfleik. Stjörnurnar fimm hafa aldrei áður stigið saman á svið.

Líkt og segir í færslu Pepsi á Twitter skortir ekki verðlaunin sem fimmmenningarnir hafa sópað að sér í gegn um tíðina. Pepsi er helsti styrktaraðili hálfleiksatriðisins.

Ofurskálin fer fram sunnudaginn 13. febrúar næstkomandi á SoFi leikvanginum í Kaliforníu og verður að vanda í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×