Lífið

„Ég hélt það myndi aldrei neinn ganga inn á mitt prívat svið“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir er viðmælandi Begga Ólafs í 28.þætti af hlaðvarpinu 24/7.
Kristrún Frostadóttir er viðmælandi Begga Ólafs í 28.þætti af hlaðvarpinu 24/7. 24/7

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og þingmaður Samfylkingarinnar, er gestur í 28. þætti af hlaðvarpinu 24/7 sem er í umsjón Bergsveins Ólafssonar eða Begga Ólafs. Í þættinum ræðir Kristrún meðal annars það atvik sem hún telur hafa mótað hana hvað mest.

„Ég hélt þegar ég var lítil að að skipti ekki máli af hvaða kyni ég væri. Ég ólst upp á þannig heimili. Pabbi minn var miklu meira heima en mamma mín. Mamma er læknir og vann bara miklu meira,“ segir Kristrún um æsku sína.

Faðir hennar fléttaði hana og fór á matreiðslunámskeið til þess að geta sinnt heimilinu. Þrátt fyrir að hafa viðurkennt það eftir á að hann hafi aldrei fundið sig neitt sérstaklega í því hlutverki, þá gerði hann það sem þurfti að gera.

„Ég upplifði það aldrei sem barn eða unglingur að það myndi halda aftur að mér að ég væri kona,“ segir hún og viðurkennir að á unglingsárunum hafi hún hugsað: „Höfum við það ekki bara svo gott sem konur? Þarf maður virkilega að vera femínisti í dag?“

„Hélt að ef ég myndi einhvern tíman lenda í þessu myndi ég bara trompast og lemja viðkomandi“

Þessi hugsun situr alltaf í henni vegna þess að hún man svo vel það augnablik sem hún áttaði sig á því að hún hafði rangt fyrir sér.

„Ég var 23 ára og er byrjuð í minni fyrstu vinnu. Þá lendi ég í því að það er gengið á mig persónulega og líkamlega í einu vinnupartýi. Ég man hvað ég var miður mín yfir því að hafa verið brugðið. Ég hélt að ef ég myndi einhvern tíman lenda í þessu myndi ég bara trompast, lemja viðkomandi og fríka út, að ég væri svo ótrúlega ákveðin týpa.“

„Ég man að ég bara stirðnaði af því að mér bara krossbrá. Ég hélt aldrei að það myndi neinn ganga inn á mitt prívat svið. Þessi upplifun hefur alltaf setið í mér.“

Kristrún segir karlkynsvinnufélaga sem urðu vitni af atvikinu hafa hlegið og gert grín að þessu. Atvikið hafði gríðarleg áhrif á Kristrúnu sem segist á þessu augnabliki hafa áttað sig á því að hlutirnir væru ekki í lagi.

„Ég lenti líka í áreitni þar sem var svolítið verið að orða mína velgengni í vinnu við kynferði og ég man eftir því hvað mér fannst ég svo mikill aumingi. Ég tók þetta svo mikið inn á mig. Þá rann það upp fyrir mér hvað andlegt ofbeldi og líkamlegt ofbeldi getur haft ofboðslega mikil áhrif til lengri tíma.“

Kristrún segir þá umræðu sem hefur skapast á undanförnum árum vera mikilvæga, ekki síst fyrir virkni ungra kvenna í samfélaginu.

„Að þær hafi sjálfstraust til þess að sækja fram. Ef þú lendir í ákveðnum hlutum, hvað þá ef þú ert ekki með mikið sjálfstraust fyrir, þá getur það bara orðið til þess að þú heldur þig til hlés framan af.“

Hér að neðan má horfa á þáttinn í heild sinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×