Innlent

Árni Páll kemur nýr inn í stjórn ESA

Atli Ísleifsson skrifar
Árni Páll Árnason hefur gegnt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES frá árinu 2018.
Árni Páll Árnason hefur gegnt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES frá árinu 2018. Facebook

Ísland, Liechtenstein og Noregur tilkynntu í dag skipun á nýrri stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Stjórnina munu skipa Arne Røksund af hálfu Noregs, sem jafnframt verður forseti ESA, Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, af hálfu Íslands og Stefan Barriga af hálfu Liechtenstein.

Í tilkynningu frá EFTA segir að þeir taki til starfa í ársbyrjun 2022 og eru skipaðir til fjögurra ára. Högni S. Kristjánsson hefur verið fulltrúi Íslands í stjórninni síðustu fjögur ár.

„Arne Røksund gegnir nú starfi ráðuneytisstjóra norska varnarmálaráðuneytisins, sem hann hefur gegnt síðan í mars 2017. Á árunum 2014-2017 var hann staðgengill ráðuneytisstjóra viðskipta-, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytisins. Røksund var um nokkurt skeið í norska hernum, með stöðu aðmíráls í konunglega norska flotanum. Hann er með doktorsgráðu í sagnfræði. Hann tekur við af Bente Angell-Hansen, sem hefur gegnt starfi forseta ESA síðan 1. janúar 2017.

Árni Páll Árnason hefur gegnt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES frá 1. febrúar 2018. Hann er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og nam Evrópurétt við College of Europe. Hann starfaði í utanríkisþjónustunni að Evrópu-, viðskipta- og öryggis- og varnarmálum á árunum 1992-1998 og sinnti síðan lögmennsku, þar til hann tók sæti á Alþingi árið 2007. Hann var félags- og tryggingamálaráðherra (2009-2010), efnahags- og viðskiptaráðherra (2010-2011) og var formaður Samfylkingarinnar 2013-2016. Árni Páll tekur við af Högna S. Kristjánssyni.

Stefan Barriga hefur verið staðgengill sendiherra Liechtenstein gagnvart Evrópusambandinu frá ágúst 2016. Hann var áður staðgengill sendiherra í fastanefnd Liechtenstein hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og hefur einnig starfað sem lögfræðilegur ráðgjafi í utanríkisráðuneyti Liechtenstein. Hann hefur svo og unnið störf á vettvangi mannréttindamála. Stefán Barriga tekur við af Frank J. Büchel,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.