Innlent

Lokatölur úr Reykjavík norður: Ásmundur Einar þingmaður í Reykjavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásmundur Einar rak öfluga kosningabaráttu þar sem dró meðal annars trukk nokkra vegalegnd. Þá lét hann þau orð falla að vonandi næði hann líka að koma sjálfum sér inn í Reykjavík, sem tókst.
Ásmundur Einar rak öfluga kosningabaráttu þar sem dró meðal annars trukk nokkra vegalegnd. Þá lét hann þau orð falla að vonandi næði hann líka að koma sjálfum sér inn í Reykjavík, sem tókst. Vísir/vilhelm

Ásmundur Einar Daðason er nýr þingmaður Reykvíkinga eftir eftir stórbætingu flokksins frá því í kosningunum fyrir fjórum árum. Framsókn fékk 5,3 prósenta fylgi í kjördæminu fyrir fjórum árum en 12,3 prósent í ár. Um er að ræða langþráðan þingmann flokksins í kjördæminu. Píratar náðu tveimur mönnum inn á þing í kjördæminu.

Framsóknarflokkurinn tefldi að margra mati djarft með því að tefla ráðherranum fram í kjördæminu en hann hefur verið þingmaður í Norðvesturkjördæmi, einu helsta vígi flokksins.

Gunnar Smári náði ekki inn

Sósíalistar náðu ekki inn manni á þing eins og stefndi í samkvæmt skoðanakönnunum. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, var efsti maður á lista í kjördæminu en vantaði 719 atkvæði upp á að ná inn á þing.

Gunnar Smári Egilsson náði ekki á þing eins og allt stefndi í.Vísir/vilhelm

Hrap hjá VG

Vinstri græn hröpuðu á milli kosninga og fengu 15,9 prósent í ár miðað við 21,5 prósent 2017. Katrín Jakobsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir eru þingmenn flokksins á næsta kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn missir þingmann, fær tvo í stað þeirra þriggja sem kjörnir voru á þing 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson oddviti og utanríkisráðherra og Diljá Mist Einarsdóttir ná inn sem kjördæmakjörnir þingmenn en Brynjar Níelsson, þriðji maður á lista Sjálfstæðismanna, dettur hins vegar út af þingi.

Helga Vala Helgadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson verða þingmenn Samfylkingarinnar í kjördæminu - Helga Vala sem kjördæmakjörin og Jóhann Páll sem jöfnunarþingmaður.

Helga Vala Helgadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson eru þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Dagbjört Hákonardóttir var þriðja á lista Samfylkingarinnar í kjördæminu.

Píratar fengu þrjá

Píratar náðu inn tveimur mönnum í Reykjavíkurkjördæmi norður líkt og í síðustu kosningum. Halldóra Mogensen kemur inn sem kjördæmakjörin en Andrés Ingi Jónsson sem jöfnunarþingmaður.

Viðreisn og Flokkur fólksins halda hvort sínum þingmanninum inni. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er þingmaður Viðreisnar en Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, er nýr þingmaður Flokks fólksins.

Eftir að lokatölur höfðu verið kynntar í öllum kjördæmum um klukkan níu í morgun höfðu Píratar tryggt sér bæði jöfnunarþingsæti kjördæmisins, þau Andrés Ingi Jónsson og Lenya Rún Taha Karim. Eftir að niðurstaða endurtalningar í Norðvesturkjördæmi var kynnt síðdegis í dag varð hins vegar ljóst að Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu fengi jöfnunarþingsæti, ásamt Andrési Inga.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×