Innlent

Bannað að selja á­­fengi eftir mið­­nætti á kosninga­vökum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, hvetur alla til að fara varlega um helgina.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, hvetur alla til að fara varlega um helgina.

Engar undan­þágur á sam­komu­tak­mörkunum verða veittar fyrir kosninga­vökur stjórn­mála­flokkanna. Gestir þeirra geta því ekki neytt á­fengis eftir mið­nætti nema þeir mæti með það sjálfir eða fái það gefins frá flokkunum.

Litið verður á kosningavökurnar næsta laugardag sem einkasamkvæmi.

Því verður 500 manna fjöldatakmark á þeim og bannað að hleypa inn nýjum gestum eftir miðnætti, líkt og á skemmtistöðum.

„Og eins ef að menn eru að nota staði sem eru með vínveitingaleyfi, þá má ekki vera með vínveitingar samkvæmt því leyfi eftir miðnætti," segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Eins og brúðkaup eða afmæli

Partíin eru auðvitað ekki beint hugsuð til að klárast snemma heldur er tilgangur þeirra einmitt að fylgjast með nýjustu tölum langt inn í nóttina.

Í gegn um tíðina hafa þetta þá ekki verið miklar bindindissamkomur.

En hvað gera flokkarnir þá þegar ekki má selja áfengi eftir miðnætti? Má gefa það í staðinn?

„Já, já, bara eins og þú gerir í brúðkaupi eða afmæli eða slíku að þá máttu náttúrulega veita, eða gefa gestum þínum áfengi. Það er heimilt," segir Víðir.

Hefur áhyggjur af hópamyndunum

Búast má við miklum hópamyndunum um helgina, jafnvel þeim mestu síðan í sumar þegar engin fjöldatakmörk voru í gildi.

Er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu?

„Já, það er auðvitað einhver ástæða til þess. En við bara hvetjum fólk til að fara varlega, þetta snýst náttúrulega fyrst og fremst um okkar persónulegu hegðun," segir Víðir.

„Og síðan auðvitað geta menn nýtt sér hraðpróf til þess að taka stöðuna á sér til að athuga hvort menn séu með eitthvað og auðvitað ef að menn eru með einkenni að vera ekki að mæta í svona samkomur."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×