Innlent

Fær að kjósa aftur með eigin­manninn sér til full­tingis

Þorgils Jónsson skrifar
Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Magnús Karl Magnússon fá að snúa aftur á kjörstað þar sem Magnús fær að aðstoða Ellý við að greiða atkvæði.
Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Magnús Karl Magnússon fá að snúa aftur á kjörstað þar sem Magnús fær að aðstoða Ellý við að greiða atkvæði. Vísir/Egill

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sem fjallað var um í frétt Vísis fyrr í dag, getur farið aftur og kosið utan kjörfundar með eiginmann sinn, Magnús Karl Magnússon sér til fulltingis.

Þetta segir Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við RÚV, en þau hjónin voru afar ósátt við að kjörstjóri hafi ekki leyft Magnúsi að aðstoða Ellý, sem greindist með Alzheimer árið 2016, í kjörklefanum í gær.

Ef kosið er utan kjörfundar er hægt að fara aftur og greiða atkvæði og ógildist þá hið fyrra.

Magnús segir í samtali við Vísi nú í kvöld að sýslumaður hafi haft samband við þau hjónin í dag og staðfest þetta.

„Hún hringdi í mig bara rétt áður en ég fór inn á málþing Alzheimersamtakanna, sem var í dag í tilefni alþjóðlega Alzheimerdagsins. Við áttum mjög gott samtal og ég met það mikils hvað hún brást fljótt við. Það er ljóst að þarna urðu mistök í framkvæmd, en hún bað okkur sérstaklega um að fara aftur og að þetta myndi ekki endurtaka sig.“

Magnús bæti því við að þau væru afar sátt við þessi viðbrögð frá sýslumanni, en mikilvægt væri að fólk í þeirra stöðu átti sig á rétti sínum.

„Við erum ekki í stríði gegn kjörstjórn og skiljum vel að fólk misskilji eitthvað sökum vanþekkingar. Ég vonast til að þetta verði almenn skilaboð til kjörstjórna, sérstaklega á kjördag, að vel verði tekið á móti þessum hópi og öðrum sambærilegum.“

Þau hjónin ætli að fara aftur á kjörstað og vænti ekki annars en að fá þar góðar móttökur.

Hjónin voru ósátt við að kjörstjóri á kjörstað í gær hafi túlkað kosningalög of þröngt og endað á því að aðstoða Ellý sjálfur, sem hjónunum þótti brjóta gegn kosningaleynd.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.