Innlent

Grímuskylda í leikskólum borgarinnar að minnsta kosti fram að mánaðamótum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Grímuskylda verður áfram í gildi á leikskólum Reykjavíkurborgar, að minnsta kosti fram að mánaðamótum.
Grímuskylda verður áfram í gildi á leikskólum Reykjavíkurborgar, að minnsta kosti fram að mánaðamótum. Vísir/Vilhelm

Ákveðið var á fundi hjá Reykjavíkurborg í morgun að viðhalda og ítreka grímuskyldu í leik- og grunnskólum borgarinnar fram að mánaðamótum. Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að flestir þeir sem sæta einangrun þessa dagana eru börn á yngsta og miðstigi grunnskóla.

Þetta sagði Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Vísi rétt í þessu.

„Þetta verður endurskoðað um mánaðamótin í ljósi þess hvað þessar afléttingar núna bera í skauti sér. Og þá verður bólusetning unglinga komin í fulla virkni þannig að við gerum ráð fyrir afléttingum fyrir unglingastigið,“ segir hann.

Helgi segir borgaryfirvöld meðvituð um að nú sé aðlögun í fullum gangi á leikskólunum en aðstæður séu víða þannig að ef foreldrar séu að dvelja langdvölum inni á leikskólunum sé ekki hægt að tryggja framfylgni við sóttvarnareglur.

Hann bendir á að samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknir og reglugerð heilbrigðisráðherra þá sé ennþá grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja metra fjarlægð milli einstaklinga. 

„Í staðinn fyrir að meta aðstæður í hverju og einu húsi þá höfum við þetta að meginreglu að fyrri viðmið um grímuskyldu séu virt,“ segir Helgi. Sama gildi um foreldra með börn í aðlögun og foreldra sem eru að koma með börnin og/eða sækja þau.

Helgi segir að þrátt fyrir að börn verði yfirleitt lítið veik í kjölfar kórónuveirusmits, þá snúist þetta um að standa vörð um þau. 

„Hvort sem um er að ræða sýnatöku, sóttkví eða einangrun þá vita allir foreldrar að þetta er mjög erfitt fyrir börnin. Og nú er vissulega unglingur sem liggur inni á spítala vegna Covid og það er áminning til okkar um að við erum stödd á þeim stað að það eru börnin sem eru helst að smitast og að á komandi dögum þurfum við að sýna ögn meira aðhald gagnvart börnunum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.