Innlent

Ríkisstjórnin kolfallin samkvæmt könnun Maskínu

Heimir Már Pétursson skrifar
Núverandi ríkisstjórn fengi samanlagt einungis 29 þingmenn ef kosið væri nú, miðað við könnun Maskínu.
Núverandi ríkisstjórn fengi samanlagt einungis 29 þingmenn ef kosið væri nú, miðað við könnun Maskínu. infogram

Ríkisstjórnin er kolfallin samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir Bylgjuna, Stöð 2 og Vísi og fengju stjórnarflokkarnir samanlagt aðeins tuttugu og níu þingmenn.

Samkvæmt Maskínukönnuninni fyrir fréttastofuna tapar Sjálfstæðisflokkurinn töluverðu fylgi milli kannana. Flokkurinn mælist nú með 21 prósenta fylgi og fengi fjórtán þingmenn og tapaði tveimur frá síðustu kosningum.

Vinstri græn mælast nú með 11,5 prósent og fengju sjö þingmenn, töpuðu fjórum frá kosningunum 2017 þegar flokkurinn fékk ellefu þingmenn kjörna en tveir þingmenn yfirgáfu þingflokkinn á kjörtímabilinu.

Framsóknarflokkurinn fengi 12 prósent atkvæða ef kosið yrði nú samkvæmt könnun Maskínu og átta þingmenn kjörna sama fjölda og í síðustu kosningum. Ásmundur Einar Daðason næði ekki kjöri í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samanlagt fengju stjórnarflokkarnir því aðeins 29 þingmenn en þeir eru með þrjátíu og þrjá þingmenn í dag eftir brottför tveggja þingmanna Vinstri grænna.

Samfylkingin er í sókn og mælist með 14,6 prósent og fengi 9 þingmenn. Píratar mælast með 13,3 prósent og níu þingmenn og ná inn þingmönnum í öllum kjördæmum í fyrsta skipti.

Viðreisn fengi 12,3 prósenta fylgi og átta þingmenn í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi.

Miðflokkurinn myndi bíða afhroð ef úrslit kosninganna yrðu eins og í könnun Maskínu. Flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fengi 5,5 prósent atkvæða og þrjá þingmenn kjörna. Þeirra á meðal formann flokksins.

Flokkur fólksins næði inn einum manni í Suðurkjördæmi. Þannig myndi Inga Sæland formaður flokksins ekki ná kjöri í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 6,1 prósent atkvæða. Flokkurinn fengi fjóra þingmenn þar af tvo uppbótarþingmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn kemst varla á blað með 0,1 prósenta fylgi og þar af leiðandi engan þingmann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.