Innlent

Sveitar­fé­lög greiði há­skóla­menntuðum 40 prósent lægri laun en fyrir­tæki

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Háskólamenntaðir sem starfa hjá sveitarfélögum fá 40 prósent lægra tímakaup en þeir sem vinna á almennum markaði.
Háskólamenntaðir sem starfa hjá sveitarfélögum fá 40 prósent lægra tímakaup en þeir sem vinna á almennum markaði. Getty

Háskólamenntaðir sérfræðingar fengu 40 prósent lægra tímakaup hjá sveitarfélögum en á almennum markaði og 15 prósentum lægra tímakaup en hjá ríkinu í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bandalagi háskólamanna.

83 prósent háskólamenntaðra sérfræðinga sem starfa hjá sveitarfélögum eru konur, samkvæmt tilkynningunni. Bandalagið segir menntun kvenna undirverðlagða hjá ríkinu.

„Menntun virðist þannig síður metin til launa hjá sveitarfélögum en á öðrum mörkuðum. Margir þessara sérfræðinga eiga langt háskólanám að baki og sinna þjóðhagslega mikilvægum störfum eins og þroskaþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og kennslu í grunnskólum svo fátt eitt sé nefnt,“ segir í tilkynningunni.

Staðan sé mikið áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að fylgni virðist vera milli lágs launastigs sveitarfélaga og stétta þar sem konur séu í miklum meirihluta.

„Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um að kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er. Markmiðið var að tryggja að ekki yrði kerfislægur launamunur milli markaða til frambúðar,“ segir í tilkynningunni.

„Erfiðlega hefur gengið að ná samkomulagi um þessi mál, sér í lagi um kjör kvennastétta. BHM hvetur stjórnvöld til að bregðast við. Horfa þarf til nýrra tillagna starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa og samkomulags um jöfnun launa.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×