Linda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Smyril Line, segir að tekist hafi að slökkva eldinn mjög fljótt eftir að hann kom upp. Engin hætta virðist því vera á ferðum og skemmdir minniháttar. Reykkafarar eru sem stendur að skoða aðstæður í vélarrúminu, leggja mat á skemmdir og þá þurfi að komast að því hvað olli eldinum.
Slökkviliðið á Seyðisfirði var snöggt á vettvang en þá hafði áhöfnin þegar slökkt eldinn. Þá hafi hitt vel á að það var nýbúið að tæma skipið af farþegum en skipið kom til hafnar í morgun. Skipið hafi þó verið rýmt, þess gætt að enginn væri um borð og starfsmenn yfirgefið skipið.
Norræna á að láta úr höfn samkvæmt áætlun annað kvöld en um sextíu ferðamenn komu með skipinu til Íslands.
Linda segist eiga eftir að taka betur stöðuna þegar búið verður að skoða betur stöðu mála í vélarrúminu hvar eldurinn kviknaði.
Auk slökkviliðsins á Seyðisfirði var mannskapur frá Egilsstöðum kallaður út.
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 16:25.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is.