Innlent

Reikna með hlaup­vatni við Sveins­tind á allra næstu tímum

Atli Ísleifsson skrifar
Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018.
Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018. Vísir/Egill

Starfsmenn Veðurstofunnar gera ráð fyrir að hlaupvatns úr Eystri Skaftárkatli verði vart við Sveinstind á allra næstu klukkustundum. Þegar það gerist mun taka um átta tíma fyrir hlaupvatnið að ná niður að þjóðveginum við Eldvatn.

„Staðan er sú að við bíðum enn eftir að sjá hlaupvatn í ánni,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við fréttastofu í morgun. „Það er ekki komið að okkar fyrsta vatnshæðamæli í ánni, sem er við Sveinstind. En það má búast við því að hlaupvatnsins verði vart á allra næstu tímum.“

Salóme Jórunn segir að svo megi gera ráð fyrir að hlaupið nái hámarki á einum og hálfum sólarhring. 

„Það hefur miðað við það áður að frá því að hlaupsins verður vart við Sveinstind og þangað til að það nær hámarki við Eldvatn eru um 48 tímar. Þetta er langur atburður í sjálfu sér, miðað við marga aðra atburði sem maður hefur tekið eftir.“

Hvernig metið þið þetta hlaup miðað við síðustu?

„Við erum að gera ráð fyrir því að þetta hlaup verði á pari við það sem varð 2018. Það er töluvert vatn í ánni eftir hlaupið úr vestari katlinum, en við erum að gera ráð fyrir að hlaupið verði á pari við hlaupið 2018 sem var þó minna en hlaupið 2015.“

Salóme Jórinn segist gera ráð fyrir að hlaupið muni ná niður að þjóðvegi um átta tímum eftir að þess verður vart við Sveinstind. 

Greint var frá því á miðvikudaginn að hlaup hafi hafist úr vestari Skaftárkatli, en í gær var svo sagt frá því að hlaup væri hafið þeim eystri. Vera kann að loka þurfi þjóðveginum við Eldhraun þegar hlaupvatnið nær þangað.


Tengdar fréttir

Sennilegt að Skaftárhlaup nái að þjóðveginum á morgun

Óttast er að vatnshæðin í Skaftá rísi verulega þegar hlaup úr eystri Skaftárkatli ratar niður ána á morgun. Vera kann að loka þurfi þjóðveginum við Eldhraun og bændur eru uggandi yfir langtímaafleiðingum ef til hamfarahlaups kemur.

Engin lífs­hætta nema fólk lendi í sér­stökum að­stæðum

Gera má ráð fyrir að það taki upp undir sólarhring fyrir vatnið sem nú hleypur úr Eystri Skaftárkatli að ná að jökuljaðrinum. Hlaupið hófst seint í gærkvöldi. Jarðeðlisfræðingur segir hlaupið eiga að ná hámarki á einum til tveimur sólarhringum. Hann segir enga beina lífshættu stafa af hlaupinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.