Innlent

Á erfitt með að hafa sam­úð með þreyttum læknum Land­spítala

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir andrúmsloftið á Landspítalanum augljóslega ekki nógu gott.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir andrúmsloftið á Landspítalanum augljóslega ekki nógu gott. Vísir/Vilhelm

Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir að eitt stærsta vanda­mál Land­spítalans sé hve illa gangi að halda þar uppi góðri stemmningu. Vanda­mál spítalans séu mörg þannig vaxin að ekki sé hægt að laga þau með auknu fjár­magni einu saman.

Kári sér ekki annað en það gangi illa að halda uppi góðu and­rúms­lofti á vinnu­staðnum.

„Ég á mjög erfitt með að hafa ein­hverja sam­úð með þeim sem tala um að þeir séu orðnir þreyttir út af þessum far­aldri,“ segir Kári í við­tali sem birtist í Lækna­blaðinu í dag.

„Vegna þess að þegar maður vinnur þá vinnu sem maður hefur þjálfað sig í að sinna í ára­tugi, starf sem maður hefur valið sér og allt í einu er þörf fyrir það, þá á að vera gaman. Menn eiga ekki að vera þreyttir,“ segir Kári og vísar síðan til þess þegar Ís­lensk erfða­greining tók að sér að sjá um að skima fyrir veirunni í byrjun far­aldursins. Starfs­fólk fyrir­tækisins hafi þá ekki kvartað yfir allt of löngum vöktum sjö daga vikunnar.

„Menn voru á­nægðir. Þeir fengu að taka þátt. Þeir voru hluti af því sem var að gerast,“ segir hann.

„En um leið og þetta fór upp á Land­spítala þá fóru allir að tala um að menn væru svo þreyttir. Þetta er ein­hver mis­skilningur. Of­boðs­lega gott fólk vinnur að veiru­rann­sóknum uppi á Land­spítala. Þetta er af­burðar­fólk en ein­hverra hluta vegna er and­rúms­loftið á spítalanum þannig að það virðist ekki fá tæki­færi til þess að njóta þess sem það gerir. Það er út í hött. Það þarf að gera eitt­hvað í því.“

Eiga að vera stoltir af starfi sínu

Kári segir það göfugt starf að fá að hlúa að sjúkum og meiddum og það hljóti að vera hægt að búa til á­stand á spítalanum þar sem menn geti verið montnir af því að starfa þar.

„En eins og stendur vill enginn vinna á Land­spítala,“ segir hann.

Til að koma hlutum í betra lag á spítalanum þurfi margt að koma til, meðal annars hugar­fars­breyting og meira fé. Einnig verði að ráðast í endur­skipu­lagningu á hlut­verki spítalans í sam­hengi við af­ganga heil­brigðis­kerfisins.


Tengdar fréttir

„Við erum ekki að horfa á pest sem við losum okkur við á skammri stundu“

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir óbólusetta aldrei í meiri hættu gagnvart kórónuveirunni en í dag. Margir séu sýktir í samfélaginu án þess að vita af því. Veiran verði ekki stöðvuð en bólusetningin eigi að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar hennar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.