Innlent

Stöðva fram­kvæmdir á Bola­fjalli þar sem bygginga­leyfi vantar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar á Bolafjalli þar sem tilskilin leyfi eru ekki til staðar.
Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar á Bolafjalli þar sem tilskilin leyfi eru ekki til staðar. Hafþór Gunnarsson

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur stöðvað framkvæmdir við útsýnispall á Bolafjalli við Bolungarvík þar sem byggingarleyfi hefur enn ekki verið gefið út fyrir framkvæmdinni.

Fréttastofa RÚV greinir frá þessu. Þar segir að umsókn um byggingarleyfi hafi borist stofnuninni þann 10. júní síðastliðinn. Þremur dögum síðar hafi byggingarfulltrúi sent tuttugu athugasemdir við umsóknina til Bolungavíkurkaupstaðar.

Leiðrétt gögn hafi hins vegar ekki borist til baka og þann 17. ágúst hafi umsjónaraðila framkvæmdarinnar, Finnboga Bjarnasyni byggingarfulltrúa, og hönnuði pallsins borist krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar strax.

„Þetta er alvarlegt mál þar sem þetta snýst um öryggi. Ef eitthvað hefði komið þarna fyrir þá er bent á okkur. Sem byggingarfulltrúi er ég mjög ósáttur við hvernig staðið var að þessu,“ segir Pétur Bolli Jóhannesson, sérfræðingur á sviði Öryggis mannvirkja hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, í samtali við RÚV.

Samkvæmt fréttinni viss Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, ekki af stöðvun framkvæmdarinnar í morgun. Verið væri að bíða eftir gólfefni fyrir útsýnispallinn og hann yrði svo opnaður almenningi um miðjan september.

Pétur Bolli segist undrandi á vanþekkingu bæjarstjórans þar sem byggingarfulltrúa hafi borist tilkynning um stöðvun framkvæmdanna fyrir tíu dögum síðan.

„Þetta er í raun ótrúlega barnaleg stjórnsýsla, og eitt af þessum slæmu tilfellum. Svona á alls ekki að vinna þetta. Það er lykilatriði að samþykktir liggi fyrir með svona framkvæmd, ekki síst þegar um er að ræða mannvirki í tæplega 700 metra hæð,“ er haft eftir Pétri Bolla.

Leiðrétt byggingargögn hafi svo borist í gær, tveimur mánuðum rúmum eftir að athugasemdir bárust bæjaryfirvöldum í Bolungarvík frá HMS.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×