Innlent

Nýtt gosop að myndast: Hraunið gæti mögulega runnið niður í Geldingadali

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gígurinn minnir á sig.
Gígurinn minnir á sig.

Svo virðist sem nýtt gosop sé að taka á sig mynd í eldgosinu í Fagradalsfjalli en það sést vel á vefmyndavélum. Of snemmt er að segja til um hvort um er að ræða nýjan gíg.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands, er líklegast að um sé að ræða op í kantinum á stóra gígnum. Hann segir að byrjað hafi að „malla“ í opinu um klukkan 10 en þá hafði gosvirkni legið niðri frá klukkan 15.30 í gær.

Hér má sjá upptöku úr vefmyndavél Vísis þar sem fylgjast mátti með atburðarásinni í morgun.

Klippa: Nýtt gosop sést brjótast í gegnum hraunið

Ekki verður hægt að segja til um hvers eðlis gosopið er fyrr en myndir fást af því að ofan en Bjarki segist ekki vita til þess að yfirflug sé á dagskrá. Þó hafi verið rætt um það fyrir helgi að fara í loftið til að mæla umfang hraunsins þegar veður leyfði.

Hraunið úr gígnum hefur að mestu runnið niður í Meradali en Bjarki segir mögulegt að hraun úr opinu nýja muni fara niður í Geldingadali. Ef svo fer mun það væntanlega sjást í vefmyndavél sem komið var fyrir á varnargarði og Veðurstofan fylgist með.

Mbl.is sagði fyrst frá.

Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu af Fagradalsfjalli úr vefmyndavél Vísis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.