Lífið

Kanye hélt annað hlustunarpartý fyrir Donda

Árni Sæberg skrifar
Frá fyrra hlustunarpartýinu sem var 22. júlí.
Frá fyrra hlustunarpartýinu sem var 22. júlí. Kevin Mazur/Getty

Kanye West hélt hlustunarpartý fyrir nýja plötu sína Donda sem átti upphaflega að koma út 23. júlí síðastliðinn. Í gær var tilkynnt að platan kæmi út í dag en nú virðist sem það muni ekki gerast fyrr en á morgun.

Hlustunarpartýið fór fram á Mercedes Benz leikvanginum í Atlanta í Bandaríkjunum en Kanye hefur búið þar síðan 22. júlí hið minnsta.

Myndir af vistarverum Kanyes hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum undanfarið.

Hann hélt annað hlustunarpartý þar 22. júlí, kvöldið áður en platan átti að koma út. Athygli vakti að eiginkona hans Kim Kardashian hafi verið viðstödd en þau standa nú í skilnaði. Kim lét sig ekki vanta í partýið í gær heldur.

Fyrir viðburðinn í gær birtist platan á vefsíðu Apple Music en þó er aðeins hægt að forpanta hana þar. Upphaflega stóð að útgáfudagur væri 6. ágúst en nú stendur að hann verði á morgun, 7. ágúst.

Að sögn viðstaddra var platan sem spiluð var í hlustunarpartýinu í gær nokkuð frábrugðin þeirri sem spiluð var 22. júlí. Þá var viðburðurinn í gær meira sjónarspil en sá fyrri. 

Hlustunarpartýinu í gær var leikstýrt af Demna Gvasalia, listrænum stjórnanda Balenciaga. Mikið var um dýrðir en viðburðurinn endaði til að mynda með því að Kanye sjálfur var hífður hátt á loft meðan lagið No Child Left Behind ómaði um leikvanginn.

Viðburðinum í gær var streymt á netinu auk þess að Kanye sýndi frá undirbúningi hans. Hann sýndi meðal annars frá því þegar hann hitaði upp fyrir viðburðinn með lyftingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×