Innlent

Fjölga starfsfólki í vikunni vegna álags

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sýnataka vegna Covid.
Sýnataka vegna Covid.

Álag er á starfsfólki sýnatökuhússins við Suðurlandsbraut, en langar raðir í sýnatöku virðast nú daglegt brauð. Verkefnastjóri skimana segir að von sé á fleira starfsfólki í næstu viku.

Að minnsta kosti 67 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Af þeim voru 36 utan sóttkvíar. 50 þeirra sem greindust í gær voru fullbólusettir og 15 óbólusettir. Einn greindist við landamærin. 

Þrír virðast hafa verið lagðir inn á Landspítala með Covid-19 en alls eru nú fimmtán inniliggjandi. Ein birtingarmynd stöðunnar hér á landi er löng röð í sýnatöku sem virðist nú daglegt brauð.

„Það gengur ágætlega. Það er mikið að gera og myndast langar raðir en þetta gengur ágætlega fyrir sig,“ sagði Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Samskiptastjóri almannavarna sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar um helgina að búast mætti við fjölgun tilfella eftir verslunarmannahelgina. Færri sýni eru tekin um helgar en á virkum dögum. 

Eiga margir bókað í sýnatöku í dag?

„Það er bara svona álíka eins og hefur verið þessa helgardaga. Þetta eru í kringum þrjú þúsund. 2.800 til 3.200. En þar eru ferðasýni líka.“

Hvernig er staðan á starfsfólki og mönnun?

„Það er bara ágætlega mannað. Við erum að vinna í því að bæta við. Það tekur alltaf tíma, það þarf að þjálfa fólk. En við munum bæta við í komandi viku.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.