Innlent

Sjálfstæðisflokkur vinsælastur hjá körlum en VG hjá konum

Heimir Már Pétursson skrifar
Fylgi flokkana eftir kynjum, samkvæmt könnun Maskínu.
Fylgi flokkana eftir kynjum, samkvæmt könnun Maskínu. vísir

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur yfirburða fylgis meðal karla en Vinstri græn meðal kvenna samkvæmt könnun Maskínu fyrir fréttastofu Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis. Samfylkingin hefur mesta fylgið hjá yngstu kjósendunum en elstu kjósendurnir kjósa flestir Sjálfstæðisflokkinn.

Í kvöldfréttum okkar á Stöð 2 í gær greindum við frá nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofuna sem sýndi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað þremur prósentustigum frá síðustu könnun fyrirtækisins í júní og mælist nú með 20,9 prósent atkvæða. Samfylkingin, Píratar og þá sérstaklega Sósíalistaflokkurinn sækja í sig veðrið á milli kannana en aðrir flokkar standa nánast í stað eða dala milli kannanna. Þá mælist Flokkur fólksins með 4,2 prósent og næði ekki manni á þing.

Ýmislegt annað forvitnilegt kemur fram í könnun Maskínu til að mynda þegar fylgið er skoðað hjá körlum og konum. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur langmesta fylgisinis meðal karla. En 25,7 prósent karla segjast ætla að kjósa flokkinn en einungis 15,8 prósent kvenna. Þrír flokkar komast næst Sjálfstæðismönnum hjá körlunum. Það eru Samfylkingin, Píratar og Viðreisn en ríflega tólf prósent karla gefa sig upp á hvern þessarra flokka fyrir sig. Aðrir flokkar eru undir tíu prósentunum hjá karlpeningnum.

Konurnar hallast flestar að Vinstri grænum en 19,8 prósent þeirra ætla að kjósa Katrínu Jakobsdóttur og félaga samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var dagana 13. til 26. júlí. Sjálfstæðisflokkurinn er næst vinsælastur hjá konunum með 15,8 prósent eins og áður sagði en þar á eftir myndu 14,7 prósent kvenna kjósa Samfylkinguna á móti 12,8 prósentum karla.

Fylgi annarra flokka skiptist nokkuð jafnt milli kynjanna að Miðflokknum undanskildum. Aðeins þrjú prósent kvenna hyggjast kjósa Sigmund Davíð Gunnlaugsson og félaga sem annars njóta fylgis 7,8 prósenta karla.

Bera má saman fylgi flokka eftir kyni í stöplaritinu hér að neðan.

Samfylkingin nýtur mesta fylgis meðal yngstu kjósendanna, frá 18 ára til 29 ára, nýtur 25,2 prósenta fylgis þar. Næstir koma Sjálfstæðismenn með 20,8 prósent, Píratar með 15 prósent og Framsókn og Vinstri græn með annars vegar 10,7 prósent og hins vegar 10,5 prósent. Aðrir flokkar eru undir tíu prósentunum.

Sjálfstæðisflokkurinn er síðan með yfirburðarstöðu hjá tveimur elstu aldurshópunum, 50 til 59 ára og 60 ára og eldri, með 26,9 prósent hjá fyrri hópnum og 23,7 prósent hjá þeim síðari.

Bera má saman fylgi flokka eftir aldri í stöplaritinu hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×