Lífið

Varsla Hannesar á víti Messi borgar sig í kín­verskum stór­aug­lýsingum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hannes við gerð auglýsingarinnar í febrúar.
Hannes við gerð auglýsingarinnar í febrúar. mynd/Bernharð Kristinn

Hannes Þór Hall­dórs­son, lands­liðs­mark­vörður og leik­stjóri, fékk heilan helling af til­boðum um að leik­stýra aug­lýsingum og fleiri verkefnum frá Kína eftir að aug­lýsing hans fyrir Coca-Cola var sýnd á heims­meistara­mótinu í knatt­spyrnu árið 2018.

Hann hefur að eigin sögn ekki haft tíma til að taka að sér slík verk­efni síðustu ár, enda enn þá at­vinnu­maður í fót­bolta, þar til nú ný­lega að hann fékk tvö til­boð, átti lausan tíma og sló til.

Aðra aug­lýsinguna gerði hann fyrir kín­verska síma­fram­leiðandann Xia­omi en hina fyrir risa­fyrir­tækið Nongfu Spring. Það er eitt stærsta fyrir­tækið í Kína og eig­andi þess, Z­hong Shans­han, er þriðji ríkasti maður Kína, sam­kvæmt lista For­bes í fyrra. Varan sem aug­lýst er fyrir Nongfu Springs er í­þrótta­drykkurinn Scream.

Auglýsingin var frumsýnd á Evrópumótinu í sumar en hún er eingöngu fyrir kínverskan markað.

Vegna laga­legra at­riða má ekki sýna aug­lýsinguna utan Kína og því er hún ekki að­gengi­leg á netinu en Hannes gaf í dag út mynd­band þar sem skyggnst er á bak við tjöldin við gerð aug­lýsingarinnar. Það má sjá hér:

En hvað er kín­verskt risa­fyrir­tæki að vilja með ís­lenskan lands­liðs­mark­vörð og leikstjóra?

„Ég held að það sé bara út af því að ég varði víti frá Messi,“ segir Hannes Þór og hlær. „Nei, ég segi svona. En þessi aug­lýsing sem ég gerði fyrir Coke varð mjög vin­sæl í Kína og ég held hún hafi orðið vin­sælli því að það var lands­liðs­mark­vörður Ís­lands sem að gerði hana. Svo sprakk allt eftir leikinn við Argentínu.“

Hér má sjá auglýsinguna fyrir Coke, sem var sýnd á síðasta HM:

Þá hafi til­boðum í verkefni farið að rigna yfir Hannes, sem hafði þá engan tíma í að sinna leik­stjórnar­störfum í bili.

En sá tími er hægt og ró­lega að verða til og vonast Hannes til að kín­verski markaðurinn sé markaður sem hann geti sótt meira inn á á næstunni.

Leikstjórn tekur við boltanum

Hann er nú 37 ára gamall og farið að síga á seinni hlutann á hans fót­bolta­ferli en hann er nú aðal­mar­k­vörður hjá fé­laginu Val.

Hvað tekur við eftir fót­bolta­ferilinn? Leik­stjórn?

„Já, ég held að það sé engin spurning. Ég er búinn að vinna í þessu í fimm­tán ár og þetta er það sem ég kann að gera fyrir utan það að standa í marki,“ segir Hannes.

Hann leik­stýrði ný­lega sinni fyrstu kvik­mynd, Leyni­löggu, sem verður frum­sýnd hér á landi 27. ágúst í Sam­bíóunum.

Aug­lýsingin fyrir Nongfu Spring var tekin upp á Ís­landi í byrjun febrúar en í henni leika nánast ein­göngu ís­lenskir leikarar og er það tækni­fólk sem kom að gerð hennar allt ís­lenskt.

Hannes leik­stýrir henni sem fyrr segir en nafni hans Hannes Þór Ara­son er yfir fram­leiðslu hennar. Ágúst Jakobs­son tók hana upp og Jörundur Rafn Arnar­son er svo­kallaður VFX supervis­or og sér þannig um tækni­brellur hennar.

Sambærilegt myndband um gerð hinnar auglýsingarinnar fyrir Xiaomi má sjá í tístinu:


Tengdar fréttir

Sjáðu stjörnum prýdda auglýsingu markmannsins

Þúsundþjalasmiðurinn og landsliðsmarkmaðurinn Hannes Þór Halldórsson leikstýrði nýrri auglýsingu Coca-Cola, sem framleidd var fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×