Sport

Fjórtán ára strákur lést í mótorhjólakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Millán hafði komist fjórum sinnum á verðlaunapall og var í hópi fremstu manna þegar hann féll.
Hugo Millán hafði komist fjórum sinnum á verðlaunapall og var í hópi fremstu manna þegar hann féll. Instagram/@fimcevrepsol

Hryllilegt slys varð í mótorhjólakeppni á Spáni í gær þegar fjórtán ára spænskur strákur varð fyrir hjóli annars keppenda og lést af sárum sínum.

Hinn fjórtán ára gamli Hugo Millán varð einum hring á eftir eftir að hafa dottið á miðri brautinni í Hæfileikabikar Evrópu á MotorLand Aragón brautinni. Millán hafði verið í öðru sæti þegar hann missti jafnvægið og féll í brautinni.

Nokkrir keppendur náðu að komast hjá því að aka á Millán í öðrum hringnum þegar hann reyndi að standa upp og komast útaf brautinni.

Oleg Pawelec á fimmta hjólinu keyrði hins vegar beint á hann og Millán lá eftir hreyfingarlaus á meðan restin af hjólunum fóru framhjá. Pawelec slapp við meiðsli.

Læknar huguðu að Millán í nokkrar mínútur áður en hann var fluttur á sjúkrahúsið við keppnisbrautina. Hann var seinna fluttur á sjúkrahús með þyrlu.

Seinna kom tilkynning frá mótshöldurum að Hugo Millán hefði látist af sárum sínum.

Millán og hinir keppendurnir í Hæfileikabikar Evrópu voru að reyna að sanna sig í þessari sterku alþjóðlegu keppni með það markmið að verða atvinnumenn í greininni í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×