Innlent

„Að sjálfsögðu kláraði ég bjórinn“

Snorri Másson skrifar
Þrátt fyrir að myndefnið sé í grunninn ekki ánægjuefni, vekur þessi ljósmynd mikla lukku á netinu um þessar mundir.
Þrátt fyrir að myndefnið sé í grunninn ekki ánægjuefni, vekur þessi ljósmynd mikla lukku á netinu um þessar mundir. Aðsend mynd

Fréttaljósmynd ársins er lýsing sem hefur verið höfð um myndina hér að ofan, þar sem Jón Stefánsson, sjálfur meira að segja fyrrverandi ljósmyndari, situr hinn rólegasti og klárar sinn Gull af krana fyrir utan Bláu könnuna á Akureyri á meðan hamfaraástand ríkir í kringum hann.

Fimm gistu fangaklefa eftir meiri háttar átök á staðnum í gær, sem lauk með því að einn mannanna féll í gegnum og braut framrúðu staðarins, með afleiðingum sem blasa við á hægri handlegg mannsins fyrir miðju myndarinnar. Vöðvinn hangir út.

Í auga stormsins situr Jón og ljósmyndin af því fer sem eldur um sinu um samfélagsmiðla. Þar er dáðst að yfirvegun Jóns. Í samtali við Vísi segir hann einfaldlega: „Að sjálfsögðu kláraði ég bjórinn.“

Tengdasonur Jóns, sem tók myndina, var nýkominn út með bjórinn þegar slagsmálin færðust út á stétt. „Ég ætlaði ekki að fara að láta þetta trufla mig,“ segir Jón. „Ég var búinn að vera í golfi yfir daginn og var bara mjög slakur. Ég sat bara sem fastast.“

Stóð mönnum bara á sama? Þetta virðast hafa verið almennileg slagsmál.

Jón Stefánsson og eiginkona hans Ásthildur Sigurjónsdóttir eru stödd á Akureyri í fríi.Aðsend mynd

„Ég veit ekki um aðra en ég hef nú séð ýmislegt, búinn að vera í slökkviliðinu og flugbjörgunarsveitinni. Ég drakk minn bjór, ég ætlaði ekki að fara að skipta mér af þessu.“

Jón lét sér hvergi bregða og stóð raunar ekki upp á neinum tímapunkti. Hann er staddur í fríi með fjölskyldunni fyrir norðan og verður næstu daga.

Sá sem blæðir úr á miðri mynd er samkvæmt nýjustu upplýsingum enn staddur á sjúkrahúsi. Fimm gistu í fangaklefa samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Eigandi staðarins segir við Vísi að hópurinn sem hafi að lokum endað í slagsmálum hafi verið rólegur framan af en svo hafi átökin magnast og endað með ósköpum.

Íslendingar á Twitter eru heillaðir af stillingu Jóns:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×