Innlent

Engar skýringar á skriðuhruni í Hágöngum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sjónarvottar segja skriðurnar hafa fallið klukkustundum saman.
Sjónarvottar segja skriðurnar hafa fallið klukkustundum saman. Stefán Guðmundsson

Skriður féllu í Hágöngum, yst í Kinnarfjöllum, í Skjálfanda í gærkvöldi. Sjónarvottar sem staddir voru í Flatey segja að skriðurnar hafi fallið klukkustundum saman og að miklar drunur hafi fylgt þeim. Veðurfræðingur hjá ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands, segist engar skýringar hafa fyrir skriðunum.

„Þetta fellur þarna fram í sjó og verður svolítil hrúga í fjörunni. Þannig að við höfum svo sem engar skýringar á þessu, það var enginn snjór þarna fyrir ofan sem var að bráðna eða eitthvað sérstakt sem maður sér. Þetta virðist bara vera eðlilegt hrun í þessum bröttu fjöllum sem verður alltaf af og til,“ segir Sveinn Brynjólfsson, veðurfræðingur hjá ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.

Hann segir svona skriður vera algengari þegar eitthvað kemur þeim af stað en þær geti vel farið af stað sjálfar.

Heill hellingur af grjóti.Stefán Guðmundsson

„Það er mjög algengt að það hrynji í svona bröttu fjalli. Þetta eru bara klettar og skriðurnar fara bara fram í sjó, það er ekkert undirlendi þarna. Það er mjög algengt alls staðar þar sem þannig er, að það sé að hrynja en menn verða ekkert alltaf varir við þetta,“ segir Sveinn.

Kyrrðin og veðurblíðan hafi orðið til þess að fólk úti í Flatey hafi orðið vart við skriðurnar.

„Þarna er þetta bara svo nærri Flatey að menn heyrðu þetta og sáu vel. Af því að það var svo kyrrt og bjart,“ segir Sveinn.

Stefán Guðmundsson, forstjóri Gentle Giants, var staddur í Flatey í gær þar sem hann sá vel til skriðanna. Hann sagði í samtali við Vísi í hádeginu að enn féllu skriður úr fjallinu.

Sveinn telur ekki ólíklegt að bergstykki hafi hrunið úr fjallinu og komið skriðunni af stað.

„Það virðist vera að það sé þarna dálítið stykki sem að fer en það virðist ekki vera ofarlega í fjallinu, það virðist hafa verið frekar neðarlega sem að þetta fer af stað. Þá er ekkert ólíklegt að það hafi verið eitthvað bergstykki sem var að hruni komið og bergið hafi sprungið og veðrast með tíð og tíma.“

Stefán Guðmundsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.