Tónlist

Ræddi við raunverulega áhrifavalda samfélagsins í krafti guðdómsins

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bergþór Másson hefur haldið úti hlaðvarpi um íslensku rappsenuna síðasta eina og hálfa árið.
Bergþór Másson hefur haldið úti hlaðvarpi um íslensku rappsenuna síðasta eina og hálfa árið. ísak hinriksson

Ís­­lenskir rapparar eru sví­virtir af fjöl­­miðlum og ís­­lensku ríkis­­stjórninni, að sögn Berg­þórs Más­­sonar, sem mætti kalla einn helsta sér­­­fræðing þjóðarinnar í rapp­­tón­list. Þá nafn­bót hlýtur hann að eiga skilið eftir út­gáfu hlað­varps­þátta sinna Kraft­birtingar­hljóms guð­dómsins, sem luku göngu sinni í dag, því þar hefur Berg­þór rætt við nánast alla nafn­þekkta rappara landsins á síðasta eina og hálfa árinu.

Þættirnir koma út hjá Útvarpi 101 en Bergþór hefur hugsað þá sem sagn­fræði frekar en skemmti­efni:

„Mark­miðið var að skrá­setja sögu ís­lensks rapps. Vonandi þegar ein­hver skrifar sögu ís­lenska rappsins í fram­tíðinni verður þetta heimild sem við­komandi getur notast við. Mér finnst ég hafa náð vel utan um söguna,“ segir Berg­þór sem hefur, með síðasta þættinum, rætt við 54 ís­lenska rappara.

Þar má nefna unga rappara og hljóm­sveitir á borð við Birni, Herra Hnetu­smjör, Aron Can, Jóa­Pé og Reykja­víkur­dætur en einnig eldri kempur í leiknum sem fóru á undan og ruddu braut þessara ungu lista­manna, til dæmis Emm­sé Gauta, Bent, Dabba T, Skytturnar og Af­kvæmi guðanna.

Þar vantar reyndar tvo bestu rappara Ís­lands­sögunnar, sem Berg­þóri finnst leitt að hafa ekki náð í við­tal:

„Mér finnst tveir deila titli besta ís­lenska rappara allra tíma. Það eru þeir Erpur Ey­vindar­son og Gísli Pálmi,“ segir Berg­þór. „Þeir tveir eru á­stæðan fyrir því að þetta gengur allt í dag. Ég gæti ekki valið á milli þeirra tveggja.“

Það má segja að Erpur sé konungur gamla tímans í íslensku rappi en Gísli Pálmi þess nýja.

Hann segist hafa verið að reyna að ná við­tali við þá fé­laga síðustu tvö árin. Báðir hafa gefið honum vil­yrði sitt fyrir við­tali en eitt­hvað erfiðara hefur reynst að fá þá til að efna lof­orð sín.

Berg­þór segist þó alltaf munu stökkva til þegar þeir verða til og annað hvort gefa út auka­þætti af Kraft­birtingar­hljómnum eða bjóða þeim í hitt hlað­varp sitt, Skoðana­bræður, sem hann heldur úti með bróður sínum.

Vinsælasta tónlistin fær enga umfjöllun

Hlað­varpið var hugsað sem sagn­fræði og setur Berg­þór sig þar í stellingar nú­tíma­legs sagna­safnara, sem sest niður með við­mælendum sínum og spyr þá spjörunum úr.

Nafnið Kraftbirtingarhljómur guðdómsins sækir Bergþór í Heimsljós Laxness, þar sem Ólafur Kárason Ljósvíkingur, leitar að kraftbirtingarhljómi guðdómsins. Hann finnur Bergþór í rapptónlistinni.

Hann hefur lengi gengið með hug­myndina um við­tals­þætti við ís­lenska rappara því að hans mati hefur verið al­gjör skortur á um­fjöllun um rapp á Ís­landi. Ekki bara ís­lenskt rapp heldur einnig banda­rískt:

„Ég fór til dæmis að hugsa um daginn: Vin­sælustu plöturnar af Spoti­fy eru teknar saman á hverju ári og árið 2020 var Pop Smoke með þrjár plötur á topp tuttugu listanum. Hann var dáinn með þrjár plötur á listanum – gaur sem er bara orðin hetja allra krakka. Og RÚV hafði ekki gert eina frétt um hann. Og heldur ekki hinir miðlarnir,“ segir Berg­þór.

Rapparinn Pop Smoke var skotinn til bana á heimili sínu í fyrra. Hann var langvinsælasti tónlistarmaður meðal íslenskra ungmenna það árið. getty/Arik McArthur

Hann segist átta sig á erfið­leikum í rekstrar­um­hverfi einka­rekinna fjöl­miðla sem geti kannski ekki sett mikið púður í vandaða um­fjöllum um rapp­tón­list en hann harmar að ríki­smiðillinn hafi brugðist í þessu hlut­verki sínu. RÚV verði að anna eftir­spurn unga fólksins, sem hlustar varla á annað en rapp­tón­list í dag.

„Og þegar við erum að tala um það að vernda ís­lenskuna… hvað eru krakkar að inn­byrða ís­lenskt? Ekki neitt nema tón­listina. Og hver er vin­sælasta tón­listin? Rapp­tón­list. Þetta er eina efnið sem krakkar eru að fá í dag sem er á ís­lensku,“ bendir Berg­þór á.

„Rappið er að hafa á­hrif á krakkana. Það er að móta þau, stundum meira en for­eldrarnir gera. Krakkar þurfa ein­hvern til að setja þetta allt í sam­hengi fyrir sig og út­skýra þetta fyrir sér.“

Rappið alls staðar

Hann stingur þá upp á að ríkis­stjórnin setji vin­sælustu rappara landsins heiðurs­lista­manna­laun svo þeir geti ein­beitt sér að því að skapa tón­list og þar með sloppið undan þeim hvim­leiða bagga, sem fjár­hags­legar á­hyggjur geta verið fyrir lista­menn.

„Það á alla­vega að gera þessu fólki hærra undir höfði. Það er ekkert verið að hlúa að þessu. Rappið er eigin­lega bara dá­lítið sví­virt,“ segir Berg­þór.

Hann segir að rappið hafi meiri menningar­leg á­hrif en fólk geri sér al­mennt grein fyrir; ekki að­eins þegar kemur að tísku, tón­list og listum heldur sé sam­fé­lagið að verða gegn­sýrt af á­hrifum rappsins. Enda sé fólkið sem ólst upp við að rappið væri að ryðja sér til rúms í Banda­ríkjunum nú orðið full­orðið.

„Allt sem er kúl í dag er sótt til rappsins. Síðast­liðin tuttugu ár hefur þetta verið vin­sælasta tón­listar­stefna í heimi og með streymis­tölum fáum við núna loksins að sjá það.“


Tengdar fréttir

Erpur svaf ekki í þrjá mánuði í miðri ástarsorg

„Auðvitað kemur að því að allir verða ástfangnir og alveg rosalega mikið. Ég er að reyna sleppa því en ég klikkaðist,“ segir rapparinn Erpur Eyvindarson sem fjallað var um í Tónlistarmönnunum okkar á Stöð 2 í gær.

Sony greiddi milljónir í sekt vegna hegðunar Quarashi í Tókýó

„Ég hef verið í tónlist frá því ég var ellefu ára og gerði lag fyrir kvikmyndina Veggfóður þegar ég var fjórtán ára,“ segir Steinar Fjeldsted, sem margir þekkja best sem Steina úr Quarashi. Hann fékk tónlistaráhugann snemma og byrjaði níu ára að hlusta á rapp. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×