Innlent

Héldu á villtum kópi fyrir sjálfs­mynd: „Getur valdið dýrinu miklum skaða"

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kópurinn var villtur, ólíkt þessum á myndinni sem er tekin í Húsdýragarðinum.
Kópurinn var villtur, ólíkt þessum á myndinni sem er tekin í Húsdýragarðinum. vísir/vilhelm

Líf­fræðingur hjá Náttúru­stofu Austur­lands segir að fólk eigi alls ekki að nálgast villta selkópa, hvað þá að halda á þeim fyrir góða sjálfs­mynd eins og gerðist síðustu helgi í Reyðar­firði. Það geti hrein­lega orðið til þess að urtan yfir­gefi þá og þeir drepist í kjöl­farið.

Náttúru­stofu Austur­lands barst til­kynning frá um­hverfis­full­trúa Fjarða­byggðar síðasta sunnu­dag um selkóp í Reyðar­firði sem hafði orðið fyrir mikilli truflun frá fólki. Það hafði farið upp á honum til að klappa honum, mynda sig með honum og jafn­vel halda á honum.

Fyrst var greint frá þessu á vef Austur­frétta en Hálf­dán Helgi Helga­son líf­fræðingur segir í sam­tali við Vísi að hættan við að kjassast utan í villtum dýrum með þessum hætti sé tví­þætt:

„Annars vegar er alltaf hættan á því að fólk geti skaðað sig sjálft,“ segir Helgi og á þá við að dýrið geti bitið menn. „En hitt er svo að þetta getur valdið dýrinu miklum skaða. Í svona til­fellum þegar menn nálgast selkópa þá geta þeir fælt urtuna í burtu. Þarna var stans­laus traffík af fólki sem getur valdið því að hún fælist.“

Kópur drapst í fyrra vegna ágangs manna

Hann segir að sam­bæri­legt at­vik hafi komið upp í fyrra á Eski­firði. „Þar var kópur í fjöru fyrir innan bæjar­mörkin sem fékk ekki að vera í friði. Að öllum líkindum yfir­gaf urtan hann bara.“

Hálf­dán segir skiljan­legt að fólk hafi á­hyggjur af og vilji hjálpa dýri sem virðist um­komu­laust eins og selkópar geta litið út fyrir að vera. Það skýrist þó oftast af því að urtan er lengi í burtu og skilur kópinn eftir á meðan.

Fólk eigi alls ekki að taka málin í sínar hendur þegar það sér villt dýr sem það telur vera hjálpar­þurfi, það eigi ekki að­eins við um kópa. „Fólk verður að hringja lög­regluna og hún setur þá af stað verk­feril með MAST (Mat­væla­stofnun) og alls ekki að ganga sjálft í málin og alls ekki að taka dýrin í fóstur.“

Svo virðist sem allt hafi farið vel á endanum í Reyðar­firði en Hálf­dán segir það síðustu fréttir sem hann hafi fengið af kópnum hafi verið já­kvæðar. Um­hverfis­full­trúinn hefur fylgst með honum og sá hann síðast stinga sér til sunds til að sækja sér fisk.

„Þannig þetta hefur að öllum líkindum endað vel hjá þessum,“ segir Hálf­dán sem telur þetta til marks um að kópurinn geti séð um sig sjálfur að ein­hverju leyti. Hann telur þá jafn­vel að urtan sé ekki langt undan og að hún hafi jafn­vel komið til að vitja kópsins á næturnar þó ekkert hefur sést til hennar á daginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.