Lífið

„Ég er feit og ég er einkaþjálfari“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Arna Vilhjálmsdóttir þjálfari hjá Kvennastyrk fræðir um líkamsvirðingu, sjálfsást og sjálfstraust á samfélagsmiðlum og í sínu starfi.
Arna Vilhjálmsdóttir þjálfari hjá Kvennastyrk fræðir um líkamsvirðingu, sjálfsást og sjálfstraust á samfélagsmiðlum og í sínu starfi. Ísland í dag

„Það sem maður verður að hugsa fyrst er að álit annarra kemur manni ekkert við,“ segir Arna Vilhjálmsdóttir, sigurvegari Biggest Loser árið 2017. Arna hefur síðustu misseri unnið sem grunnskólakennari en í dag starfar hún sem þjálfari og notar samfélagsmiðla til þess að vera öðrum fyrirmynd.

„Ég er akkúrat þar sem ég á að vera.“

Arna heimsótti Bítið á Bylgjunni og ræddi meðal annars líkamsvirðingu, að þyngjast eftir Biggest Loser og margt fleira. Hún segir að margir ættu frekar að einbeita sér að því sem raunverulega skiptir máli, eins og samböndunum sínum, heilsunni, svefni og svo framvegis í stað þess að velta sér upp úr atriðum eins og appelsínuhúð og lærum sem hristast.

„Fyrir þær konur og að sjálfsögðu karla líka, langar mig að segja, þetta skiptir ekki svona miklu máli,“ segir Arna.

„Vertu í því sem þig langar að vera í, ekki bíða eftir næsta sumri því þetta kemur og fer, ætlar þú þá ekki að njóta þess?“ segir Arna þegar talið berst að sundfötum og pressunni varðandi útlit. Hún segir að berskjöldun við mátunina valdi því að mörgum konum finnst erfitt að kaupa sundföt.

„Maður sér allt og við erum bara ótrúlega fljótar að verða ekki ánægðar.“

Arna er ótrúlega dugleg að deila jákvæðu, hvetjandi efni á Instagram undir nafninu Arna Vilhjálms.

Veit mikið og má miðla því

Arna er ein af þremur þjálfurum Kvennastyrks í Hafnarfirði er þar æfa eingöngu konur. Hún skrifaði á dögunum færslu á samfélagsmiðlum um að hún er feit og hún er einkaþjálfari, annað þurfi alls ekki að útiloka hitt.

„Ég horfi í kringum mig og það er ekki mikið af þjálfurum sem líta út eins og ég.“

Hún er þakklát fyrir að vera á þessum stað og geta notað eigin reynslu í að hjálpa öðrum.

„Ég veit ótrúlega mikið og má alveg miðla því þó að ég sé X mörg kíló,“ útskýrir Arna.

Viðtalið má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×