Innlent

Ísbjörninn sem reyndist líklega álft

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Álftir eru í sama lit og ísbirnir og nokkuð stórar í þokkabót. 
Álftir eru í sama lit og ísbirnir og nokkuð stórar í þokkabót.  Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Ekki er útlit fyrir að ísbjörn hafi í raun komið á land á Hornströndum í nótt eftir að dýralæknir komst að þeirri niðurstöðu við skoðun á sýni að svæðinu að líklegast hafi verið um grasætu að ræða.

Lögreglunni á Vestfjörðum barst tilkynning í gærkvöldi frá gönguhóp við Hlöðuvík við Hornstrandir um möguleg ummerki eftir hvítabjörn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og eftir eftir nánari skoðun gæslunnar og lögreglu var ekki talið unnt að útiloka að ummerkin væru frá hvítabirni. Leit var hins vegar hætt um fjögurleytið í nótt eftir að enginn björn fannst.

Útlit er fyrir að enginn ísbjörn hafi verið á ferðinni í raun og veru, að því er Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á Ísafirði, segir frá. Miðað við þær upplýsingar sem hún hefur frá lögreglu var sýni tekið á svæðinu sem dýralæknir skoðaði í nótt.

„Niðurstöður dýralæknisins voru á þá leið að það væri grasæta sem hefði skilið þennan úrgang eftir. Þannig tilgátan sem unnið er með núna er að þetta hafi verið álft frekar en ísbjörn. Það eru mjög stór spor og stór stykki sem verða eftir þegar álftir fara um þannig það gæti alveg verið að fólk hafi tekið misgripum,“ segir Kristín. Sýnið verði nú sett í frekari rannsókn.

Hún segir hafís hafa verið almennt nokkuð langt frá landi fyrir utan tvo staka jaka. Það þýði þó ekki endilega að komur ísbjarna séu ólíklegar.

„Við vitum náttúrulega rosalega lítið um komur ísbjarna. Við höfum alltaf tengt þetta við nálægð íss við landið og svo framvegis en á sama tíma vitum við að rannsóknir hafa sýnt að ísbirnir geta synt ótrúlega langt. Þannig það er svolítið erfitt að segja til um þetta. Við þekkjum þetta ekki nógu vel,“ segir Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á Ísafirði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.