Sport

Ísland í 9. sæti B-deildar Evrópubikarsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Íslenski hópurinn.
Íslenski hópurinn. mynd/fri

Lið Íslands lauk keppni í 9. sæti í Evrópubikar landsliða í frjálsum íþróttum sem fram fór í Stara Zagora í Búlgaríu um helgina. Ísland var neðst þeirra þjóða sem tóku þátt.

Ísland fagnaði sigri í C-deild Evrópubikarsins fyrir tveimur árum síðan og komst með þeim árangri upp í B-deildina. Sú keppni fór fram um helgina þar sem keppt var í 20 greinum í bæði karla- og kvennaflokki.

Tólf lið eru í deildinni en þau sem hafna í efstu þremur sætunum fara upp um deild á meðan þau þrjú neðstu falla í C-deildina.

Ísrael, Austurríki og Rússland eru öll í B-deildinni en mættu ekki til keppni um helgina. Því voru aðeins níu keppnisþjóðir.

Ísland lauk keppni í 9. sæti með 116,5 stig, langt á eftir Lettum, sem voru næstir á undan með 140,5 stig. Ungverjar voru efstir um helgina með 216 stig, Danir aðrir með 208 stig en Slóvenar þriðju með 183 stig.

Þrátt fyrir að ljúka keppni í neðsta sæti keppnisþjóðanna heldur Ísland sæti sínu með því einu að mæta til keppni. Liðin þrjú sem ekki mættu til leiks falla í C-deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×