Innlent

Hundi rænt fyrir utan verslun í nótt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ellefu voru stöðvaðir af lögreglu í gærkvöld og nótt grunaður um akstur undir áhrifum. 
Ellefu voru stöðvaðir af lögreglu í gærkvöld og nótt grunaður um akstur undir áhrifum.  Vísir/Vilhelm

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Ung kona var handtekin í nótt grunuð um að hafa rænt hundi, hvers eigandi hafði bundið hann fyrir utan búð í Breiðholti sem hann var að versla í. Konan var vistuð í fangageymslu fyrir rannsókn málsins í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Einn var sektaður um 150 þúsund krónur í nótt og sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði fyrir að hafa ekið á 111 km/klst í götu þar sem hámarkshraði er 50.Annar var stöðvaður í Breiðholti fyrir að vera á 103 km á klukkustund á götu með hámarkshraðann 50 en í ljós kom að ökumaðurinn er aðeins 17 ára gamall og verður foreldrum og barnavernd kynnt málið. Þá var þriðji ökumaðurinn stöðvaður á Vesturlandsvegi á 108 km/klst þar sem hámarkshraði er 80.

Þónokkuð var um að lögregla stoppaði ökumenn sem voru undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, eða alls ellefu. Einn þeirra var aðeins sautján og verður málið unnið með móður og Barnavernd. Þá gerði einn ökumaður í Austurbæ Reykjavíkur tilraun til að komast undan lögreglu þegar hann var stöðvaður en var handtekinn skömmu síðar. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Þá var maður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur grunaður um eignarspjöll og hilmingu. Maðurinn var vistaður í fangaklefa fyrir rannsókn málsins. Þá var ofurölvi maður handtekinn í miðbænum og vistaður sökum ástands í nótt.

Tilkynnt var um þjófnað í verslun í Breiðholtinu á ellefta tímanum og afskipti höfð af manni sem grunaður var um hnupluð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×