Innlent

Flutninga­skip Eim­skips strandaði í Noregi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hólmsfoss er eitt af flutningaskipum Eimskips.
Hólmsfoss er eitt af flutningaskipum Eimskips. Eimskip

Flutninga­skip Eim­skips strandaði í Ála­sundi í Noregi í dag. Níu menn eru um borð í skipinu en enginn þeirra slasaðist.

Skipið strandaði við bæinn Ler­stad í Ála­sundi klukkan eitt að staðartíma en sam­kvæmt frétt NRK nær stefni skipsins minnst þrjá metra inn í fjöruna.

Sam­kvæmt norsku lög­reglunni eru skip­verjarnir ekki í neinni hættu en unnið er að því að koma skipinu aftur út. Það er í verka­hring Eim­skips að bjarga því. Ekki er talið að skipið leki.

Skipið ber heitið Hólm­foss og er um 88 metra langt frysti- og gáma­skip. Það var á leið sinni milli hafna í Álasundi.

Uppfært klukkan 14:00:

Skipið er komið á flot

Að sögn Eddu Rutar Björnsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Eimskips er skipið komið aftur á flot og leggur að bryggju í Álasundi innan skamms.

Það eru einhverjar skemmdir á því en þær eru ekki meiri en svo að skipið getur siglt þangað á eigin vélarafli.

Þegar það leggur að bryggju verða skemmdirnar metnar. 

Edda Rut segir það ekki liggja fyrir hvernig skipið strandaði en það verður skoðað betur í dag.

Erfiðir dagar hjá Eimskipi

Síðasta vika hefur verið erfið fyrir Eimskip. Fyrirtækið gekkst í gær við alvarlegum brotum gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með sátt við Samkeppniseftirlitið upp á einn og hálfan milljarð króna.

Reykur kom einnig upp í gámi um borð í Brúarfossi síðasta mánudag. Skipið var við höfn í Þórshöfn og varð slökkvilið að dæla vatni inn í gáminn.


Tengdar fréttir

Reykur barst úr gámi um borð í Brúar­fossi

Dæla þurfti vatni inn í gám um borð í Brúarfossi, skipi Eimskips, eftir að reyk tók að berast úr honum þegar skipið var á siglingu til Þórshafnar í Færeyjum síðdegis í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.