Innlent

Þyrla Gæslunnar sótti slasaða konu við Flekkudalsfoss

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá björgunaraðgerðum í Kjósinni í gær.
Frá björgunaraðgerðum í Kjósinni í gær. Aðsend

Björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið var kallað á vettvang í gær eftir að tilkynnt var að kona hefði fallið á göngu við Flekkudalsfoss. Konan var slösuð og flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku Landspítalans.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur ekkert fram um meiðsl konunnar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var tvisvar kölluð til í gærkvöldi og nótt vegna einstaklinga í annarlegu ástandi. Í fyrra skiptið var um að ræða tvo hótelgesti sem voru til vandræða en þeir yfirgáfu hótelið eftir viðræður við lögreglu.

Í seinna skiptið var um að ræða mann sem lét öllum illum látum á slysadeild Landspítala í Fossvogi. Það mál endaði með því að maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Um kl. 18 var tilkynnt um eld í bifreið við Arnarnesbrú. Slökkviliðið kom á vettvang og slökkti eldinn en bíllin er mikið skemmdur. Engin slys urðu á fólki.

Þá var tilkynnt um olíumengun í Hafnarfjarðarhöfn rétt fyrir kl. 20. Hafnarstarfsmenn og slökkvilið hófu strax hreinsunaraðgerðir en það fylgir ekki sögunni hvernig þær gengu.

Um kl. 20.30 var tilkynnt um innbrot í verslun í Kópavogi. Innbrotsþjófurinn fannst seinna um kvöldið og þýfið sömuleiðis. Þjófurinn var í annarlegu ástandi þegar hann fannst og var vistaður í fangageymslum lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.