Innlent

Partý út um allt og veislusalir að bókast upp

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dagmar Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka viðburðafyrirtækja.
Dagmar Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka viðburðafyrirtækja. Vísir/Sigurjón

Viðburðafyrirtæki hafa vart undan við að skipuleggja samkomur fyrir hópa og fyrirtæki og viðlíka sala hefur varla sést síðan fyrir bankahrun. Salir eru að bókast upp og síminn stoppar varla hjá tónlistarfólki landsins, að sögn skipuleggjanda.

„Það er bara brjálað að gera. Við höfum ekki undan við að svara fyrirspurnum og tölvupóstum. Það eru allir að bíða eftir að gera eitthvað saman,” segir Dagmar Haraldsdóttir, formaður Samtaka viðburðafyrirtækja.

Sléttir fimmtán mánuðir eru á morgun fráþví að samkomubann var sett á hér á landi, í fyrsta sinn í lýðveldissögunni. Fordæmalausir tímar kalla á fordæmalausar aðgerðir, sagði forsætisráðherra og óraði engan fyrir því að næsta tæpa eina og hálfa árið myndi einkennast af inniveru og fjarfundum.

Loks er farið að sjást til sólar nú þegar bólusetningum vindur fram og vinir, vandamenn og vinnufélagar fá að koma saman að nýju. Fyrirtæki stukku mörg hver á tækifærið þegar dregið var úr samkomutakmörkunum í síðasta mánuði og hafa nýtt sér 150 manna heimildina til hins ítrasta.

„Maður finnur að fyrirtækin eru ekki bara að bóka einn viðburð heldur fjóra, fimm viðburði næstu mánuði bara til að setja í dagatalið,” segir Dagmar.

Fréttastofa heyrði frá viðburðafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu að viðlíka sala hafi ekki sést síðan fyrir bankahrun – þó veislurnar séu nokkuð lágstemmdari en til dæmis Baugsveislan fræga í Mónakó þegar Tina Turner steig á svið. Dagmar segir að nóg sé til í starfsmannasjóðum og að fólki sé farið að lengja eftir því að hittast, fagna og skemmta sér. Veislurnar séu því margar vissulega veglegar.

„Fólk er klárlega að leyfa sér kannski aðeins meira þvíþaðá nóg til,” segir hún. Nú sé hins vegar hver að verða síðastur að skipuleggja árið.

„Maður finnur það að salirnir eru að verða uppbókaðir og ekki síst tónlistarfólkið, sem er alveg frábært.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.