Lífið

Super­man- og Deli­verance-stjarnan Ned Beatty er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Ned Beatty árið 2013.
Ned Beatty árið 2013. Getty

Bandaríski leikarinn Ned Beatty er látinn, 83 ára að aldri. Beatty gerði garðinn frægan fyrir hlutverk í fjölda stórmynda, þeirra á meðal annars myndunum Deliverance og Superman, báðar frá áttunda áratug síðustu aldar.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Beatty hafi andast í gær í faðmi fjölskyldunnar. Hann lætur eftir sig eiginkonuna Söndru Johnson, átta börn og barnabörn.

Beatty er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Otis í kvikmyndinni Superman frá árinu 1978, en sex árum fyrr fór hann með hlutverk Bobby Trippe í spennumyndinni Deliverance, sem skartaði Jon Voight og Burt Reynolds í aðalhlutverki.

Beatty ljáði bangsanum Lotso rödd sína í myndinni Toy Story 3 og þá fór hann með hlutverk Stanley Bolander í þáttaröðinni Homicide: Life on the Street frá tíunda áratugnum.

Á um fimmtíu ára leiklistarferli var Beatty margoft tilnefndur til verðlauna, meðal annars fyrir hlutverk sitt í myndinni Network frá árinu 1976 þar sem hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aukahlutverki. Hann hlaut á ferli sínum einnig tilnefningar til Emmy og Golden Globe verðlauna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.