Innlent

Sam­bæri­legar launa­hækkanir „ó­raun­hæfar með öllu“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Vísir/vilhelm

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir ánægjulegt að markmið um kaupmáttaraukningu hafi náðst í kórónuveirufaraldrinum með síðustu kjarasamningum. Það sé hins vegar ekki raunhæft að búast við samskonar launahækkunum á næsta samningstímabili

Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um átta komma eitt prósent á fyrsta ársfjórðungi 2021 miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Þá er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hafi aukist um 2,6 prósent á sama tímabili, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Hækkun launatekna rekur Hagstofan einkum til kjarasamningsbundinna launahækkana.

„En á sama tíma hafa skattar ekki hækkað heldur til dæmis lækkað á lægstu laun og svo hafa vextir vissulega verið að lækka og eru nú í sögulegu lágmarki, þannig að þetta eru mjög jákvæð tíðindi,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Launahækkanir algjörlega á skjön við nágrannaríkin

Launahækkanir á borð við þær sem ráðist var í í fyrra samkvæmt kjarasamningum séu hins vegar ekki sjálfbærar þegar jafnmikill samdráttur mælist í hagkerfinu og nú. Aukning kaupmáttar og ráðstöfunartekna breyti því ekki.

„Þannig að það er í raun óraunhæft með öllu að telja að við getum haldið áfram að hækka laun, ekki bara algjörlega á skjön við það sem er að mælast í verðmætasköpun innanlands heldur eru launhækkanir sem verið hafa hér að mæalst algjörlega á skjön við það sem gengur og gerist í okkar nágrannaríkjum,“ segir Ásdís.

Hún segir ekki hafa verið rætt hvort semja eigi um krónutölu- eða prósentuhækkanir þegar samningar losna eftir átján mánuði.

„Við þurfum að horfa til undirliggjandi stöðu hverju sinni og vega og meta hvert svigrúm er til launahækkana því ef við göngum of langt að þá með einhverjum hætti þarf slík aðlögun að eiga sér stað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×