Innlent

Björgunar­sveitir glímdu við fjúkandi felli­hýsi í gær

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björgunarsveitir tókust á við ýmis verkefni í gær þegar óveður reið yfir Suðvesturhorn landsins. 
Björgunarsveitir tókust á við ýmis verkefni í gær þegar óveður reið yfir Suðvesturhorn landsins.  Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið sinntu talsverðum fjölda útkalla á suðvesturhorni landsins síðdegis í gær og í gærkvöldi vegna hvassviðrisins sem gekk þar yfir. Óvenjulega mörg útköll sneru að þessu sinni að ferðahýsum sem höfðu fokið til.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að hjá björgunarsveitunum hafi þetta byrjað með smá hvelli rétt fyrir sex í gær, en fram að því hafi lögregla og slökkvilið sinnt flestum aðstoðarbeiðnum.

„Þetta byrjaði hjá björgunarsveitunum með hvelli rétt fyrir 18 í gær, fram að því hafði lögregla og slökkvilið sinnt flestum aðstoðarbeiðnum en svo virðist hafa bætt í veðrið og það fór að rigna inn beiðnum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það var reitingur alveg þangað til síðla kvölds, undir miðnætti. Þá róuðust verkefnin og björgunarsveitir gátu farið aftur til síns heima rétt fyrir miðnætti,“ segir Davíð.

Davíð Már segir langflest verkefni björgunarsveitanna hafa verið foktengd og á suðvesturhluta landsins og á Suðurlandi.

„Þetta voru meira og minna allt foktengd verkefni. Það var svolítið um trampólín, klæðningar og glugga að fjúka. Það var líka töluvert áberandi í gær að það var þónokkuð af ferðahýsum, hjólhýsum og fellihýsum sem voru að færast til og valda tjóni,“ segir Davíð.

„Okkar aðgerðarstjórnendur muna ekki til þess að það hafi verið svona mikið um það áður. Það hefur auðvitað gerst en það stóð upp úr hvað var mikið um það í gær.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×