Innlent

Langflestir vilja að Katrín leiði næstu ríkisstjórn

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Hvítu tölurnar sýna fylgi í könnun Maskínu í desember og þær lituðu fylgi ráðherranna í könnun sem var gerð í maí. Grænar tölur benda til hækkandi fylgis og þær ræðu til lækkandi. Þátttakendur voru spurðir hvaða stjórnmálaleiðtogi ætti að verða forsætisráðherra eftir kosningar í haust.
Hvítu tölurnar sýna fylgi í könnun Maskínu í desember og þær lituðu fylgi ráðherranna í könnun sem var gerð í maí. Grænar tölur benda til hækkandi fylgis og þær ræðu til lækkandi. Þátttakendur voru spurðir hvaða stjórnmálaleiðtogi ætti að verða forsætisráðherra eftir kosningar í haust. vísir

Langflestir eða nærri helmingur aðspurðra í nýrri könnun Maskínu vilja Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra landsins. Stuðningur við formann Samfylkingarinnar helmingast á milli kannana.

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunar vilja flestir og umtalsvert fleiri en í síðustu könnun að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, leiði næstu ríkisstjórn eftir kosningar. 

Í desember sögðust um þrjátíu prósent aðspurða vilja Katrínu sem forsætisráðherra næstu ríkisstjórnar, en nú um 46 prósent.

Næstflestir vilja að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gegni forrystu í næstu ríkisstjórn. Stuðningur við hann minnkar þó á milli kannana og fer úr sextán í tólf prósent. Um fjórfalt fleiri vilja því Katrínu í ráðherrastólinn.

Nærri helmingur aðspurða telur að Katrín eigi áfram að verma stól forsætisráðherra eftir kosningar í haust.vísir/Vilhelm

Stuðningur við Loga Einarsson, formann Samfylkarinnar, dregst mest saman á milli kannana. Í desember sögðust um ellefu prósent vilja Loga sem næsta forsætisráðherra en nú ríflega fimm prósent.

Stuðningur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, minnkar aðeins á mili kannana, og fer úr ríflega tíu prósentum í átta og hálft prósent.

Það dregur einnig úr stuðningi við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, sem fer úr átta prósentum í sex og hálft prósent.

Í desember sögðust 11,1% telja að Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, ætti að verða næsti forsætisráðherra. Nú voru 5,4% á þeirri skoðun.vísir/Vilhelm

Álíka margir vilja sjá Sigurð Inga Jóhannsson sem næsta forsætisráðherra nú og í síðustu könnun, eða um sex og hálft prósent.

Ívið færri vilja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, leiði næstu ríkisstjórn, eða sex prósent.

Fæstir vilja að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, verði næsti forsætisráðherra en stuðningurinn helst þó nokkuð stöðugur í ríflega þremur prósentum.

Könnunin fór fram dagana 26. apríl til 4. maí og svarendur voru 878 talsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.