Sport

Tvöfaldur Ólympíumeistari sleit hásin rétt fyrir Ólympíuleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Taylor ætlaði sér að vinna þriðja Ólympíugullið í röð í Tókýó í sumar en nú er ljóst að ekkert verður að því.
Christian Taylor ætlaði sér að vinna þriðja Ólympíugullið í röð í Tókýó í sumar en nú er ljóst að ekkert verður að því. Getty/Cameron Spencer

Margfaldur Ólympíu- og heimsmeistari missir af Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar eftir að hafa meiðst illa í vikunni.

Christian Taylor hefur unnið tvö Ólympíugull og fjóra heimsmeistaratitla í þrístökki en varð fyrir því óláni að slíta hásin.

Kærasta Taylor, austurríski grindahlauparinn Beate Schrott, sagði frá meiðslum hans á Instagram reikningi sínum.

Þjálfari hans Rana Reider hefur síðan staðfest að Christian Taylor fór í aðgerð í Þýskalandi í gær.

Taylor sleit hásinina á Golden Spike mótinu í Tékklandi á miðvikudagskvöldið.

„Þetta var hásinin á hægri fæti og hann sleit hana alveg. Þetta var hreint slit og hrein aðgerð. Þeir gátu lagað þetta hjá honum. Hann var ánægður með að aðgerðin gekk vel,“ sagði þjálfarinn Rana Reider en hann býst ekki við að Taylor komi til baka á þessu ári.

„Ég veit að hann kemst samt í gegnum þetta. Hann mun berjast fyrir því að komast til baka,“ sagði Reider.

Hinn þrítugi Christian Taylor vann Ólympíugull í þrístökki bæði í London 2012 og í Ríó 2016. Hann hefur einnig fjórum sinnum orðið heimsmeistari eða 2011, 2015, 2017 og 2019. Hann á næstlengsta stökk allra tíma sem er 18,21 metri en heimsmetið á enn Bretinn Jonathan Edwards og er það stökk frá árinu 1995 upp á 18,29 metra.

Aðeins einn maður hefur unnið þrístökk á þremur Ólympíuleikum í röð en það var Sovétmaðurinn Viktor Saneyev frá 1968 til 1976.

Ólympíuleikarnir í Tókýó eiga að hefjast 23. júlí næstkomandi eða eftir tvo mánuði. Þeir áttu að fara fram í fyrrasumar en var frestað vegna kórónufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×