Fyrirkomulagið í dag er hálfgallað; margir misjafnir aðilar hýsa mismunandi kerfi sem varða málefni barna á öllum stigum barnaverndarmála. Það er tímafrekt ferli að afla upplýsinga milli þeirra og samráð sveitarfélaga er takmarkað þegar börn sem hafa barnaverndarsögu flytja milli landshluta.
Gagnagrunnurinn sem á að þróa á að einfalda þetta ferli og tryggja að upplýsingar og skráningar hjá barnaverndarnefndum landsins verði samræmdar, gagnaöflun verði sjálfvirk og að auðvelt verði að flytja mál á milli sveitarfélaga með einföldum hætti án þess að þjónusta við börn skerðist.
Verkefnið á því að stytta biðtíma barna á aldrinum tveggja til sex ára eftir þjónustu.
Ríkiskaup sjá um að óska eftir og meta tilboð í verkefnið en leitað er að tveimur tveggja til fjögurra manna teymum til að hanna og forrita gagnagrunninn.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir í tilkynningu að verkefnið sé hluti af kerfisbreytingu sem verið sé að vinna í málefnum barna. Með verkefninu verði verklag barnaverndarnefnda bætt og starf þeirra styrkt svo hægt verði að koma auga á vandamál eins fljótt og hægt er.