Innlent

Kýldi konu algjörlega að tilefnislausu í Hveragerði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líkamsárásin átti sér stað í Hveragerði í desember 2019.
Líkamsárásin átti sér stað í Hveragerði í desember 2019. Vísir/Vilhelm

Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa kýlt konu að tilefnislausu í Hveragerði í desember 2019. Þá þarf hann að greiða henni 300 þúsund krónur í bætur.

Karlmaðurinn var ákærður fyrir líkamsárás og líflátshótun. Var honum gefið að sök að hafa veist að konunni, slegið hana í jörðina, elt hana, gripið í yfirhöfn hennar og kýlt hana í andlitið. Þá hefði hann hótað henni lífláti og þannig vakið hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð.

Ákærði neitaði sök og sagðist hafa brugðist við með löðrungi eftir að konan hefði kýlt hann í magann. Hún hefði átt upptökin með leiðindum á veitingastaðnum Rósakaffi þar sem hún hefði drukkið úr glösum hans og annarra. Hann hefði meinað henni að mæta í eftirpartý því hann styddi ekki framhjáhald sem hann teldi í vændum.

Konan sagði karlmanninn hafa verið æstan. Þegar hún hefði spurt hann um ástæðu pirringsins hefði hann slegið hana með krepptum hnefa í andlitið. Hún hefði hlaupið í burtu og hann á eftir, fellt hana og látið höggin dynja á höfði hennar. Hún hefði komist upp í Securitas bifreið hvar öryggisvörður sat. Karlmaðurinn hefði hótað henni lífláti fyrir utan bílinn.

Hún kannaðist ekkert við lýsingar mannsins á aðdragandanum, hvorki varðandi dólgshátt á veitingastaðnum eða að vilja komast í samkvæmið hjá honum. Þá hefði hún ekki slegið hann eða veist að með nokkrum hætti.

Öryggisvörður hjá Securitas staðfesti frásögn konunnar af líflátshótunum. Læknir sagði áverkavottorð samsvara frásögn konunnar af atvikum og myndir af andliti hennar sem lögregla tók voru einnig lögð fyrir dóminn. Þá lýstu vitni því að hafa séð karlmanninn slá konuna.

Héraðsdómur Suðurlands taldi nægilega sannað að karlmaðurinn hefði veitt konunni þessa áverka eins og lýst var í ákæru. Myndir sýndu glögglega hvernig konan var útleikin. Ekkert hefði komið fram sem sýndi fram á að konan hefði átt upptökin. Ekki væri betur séð en atlagan hefði verið algjörlega tilefnislaus.

Var karlmaðurinn dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða konunni 300 þúsund krónur í bætur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.