Innlent

Svandís vill leiða VG í öðru Reykjavíkurkjördæmanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra býður sig fram til að leiða lista Vinstri grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Frá þessu greindi hún á Facebook í gærkvöldi.

Þar sagði hún einnig að á næsta kjörtímabili þyrfti að halda áfram „að halda vel utan um fólk og gæta að félagslegum jöfnuði.“

„Heimsfaraldur Covid-19 hefur haft í för með sér áskoranir fyrir landsmenn og við þurfum til dæmis að tryggja atvinnu fyrir alla og missa ekki sjónar á að bæta þarf stöðu þeirra sem glíma við erfiðleika vegna faraldursins. Að því höfum við unnið og því verður fylgt fast eftir.

Umhverfis- og loftslagsmál eru lykilmál og náttúruvernd verður alltaf að vera í brennidepli og hverfa þarf frá sóun og ágengri nýtingu.

Við þurfum að tryggja að unga fólkið okkar vilji búa og starfa hér á landi, það geti komið sér upp húsnæði við hæfi, búi við trygg kjör, fæðingarorlof og gott stuðningskerfi í námi.

Uppeldi og menntun eiga að vera í fyrirrúmi ásamt stuðningi við börn sem á honum þurfa að halda.

Kynjajafnrétti og önnur jafnréttismál eru mikilvæg í allri pólitík og til að fullum jöfnuði verði náð má aldrei missa sjónar á mikilvægi kynjasjónarmiða í allri ákvarðanatöku.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×