Enski boltinn

Segir engar líkur á að United muni berjast um stóru titlana með McFred á miðjunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fred og Scott McTominay eru ekki í miklum metum hjá Roy Keane, sérstaklega ekki sá fyrrnefndi.
Fred og Scott McTominay eru ekki í miklum metum hjá Roy Keane, sérstaklega ekki sá fyrrnefndi. getty/Ash Donelon

Roy Keane segir ljóst að Manchester United geti ekki barist um stóru titlana með þá Scott McTominay og Fred á miðjunni.

McTominay og Fred hafa verið fyrstu kostir Ole Gunnars Solskjær, knattspyrnustjóra United, í vetur. Þeir hafa átt misjafna leiki og Keane var ekki hrifinn af frammistöðu þeirra í 2-4 tapinu fyrir Liverpool í gær.

„Ég horfði á frammistöðu miðjumannanna tveggja í kvöld. McTominay er góður og heiðarlegur leikmaður. Og þeir eru með Fred og meðan þeir tveir eru á miðjunni vinnur United ekki stóru titlana,“ sagði Keane á Sky Sports í gær.

„Ég veit að Ole heldur tryggð við Fred en ég veit ekki af hverju. Hvernig þeir halda að Fred komi United aftur í baráttu um stóru titlana er ofar mínum skilningi.“

Fred gerði slæm mistök í þriðja marki Liverpool sem Roberto Firmino skoraði. Hann var svo tekinn af velli.

„Þetta voru mistök sem skólakrakkar gera. Fred var ekki undir neinni pressu og gefur boltann frá sér. Það hjálpaði til þegar Fred var tekinn af velli,“ sagði Keane.

Hann gagnrýndi einnig Bruno Fernandes sem skoraði fyrra mark United og sagði hann hafa vælt hálfan leikinn.

Tapið í gær var annað tap United í röð og það þriðja í síðustu fjórum leikjum. Liðið hefur tapað sex heimaleikjum í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

United er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið á tvo leiki eftir, gegn Fulham og Wolves. United er einnig komið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þar sem strákarnir hans Solskjærs mæta Villarreal.


Tengdar fréttir

Mané hunsaði Klopp eftir leikinn gegn United

Athygli vakti að Sadio Mané tók ekki í spaðann á Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, eftir sigurinn á Manchester United í gær. Klopp gerði lítið úr atvikinu í viðtölum eftir leik.

Keane: Fernandes grenjaði hálfan leikinn

Roy Keane dró hvergi af í gagnrýni sinni á Manchester United eftir tapið fyrir Liverpool í gær, 2-4. Honum fannst Bruno Fernandes væla helst til mikið í leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.