Lífið

Söngvarinn Lloyd Price fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Lloyd Price árið 2011. Hann var tekinn inn í Fræðgarhöll rokksins árið 1998.
Lloyd Price árið 2011. Hann var tekinn inn í Fræðgarhöll rokksins árið 1998. AP

Bandaríski söngvarinn Lloyd Price er látinn, 88 ára að aldri. Price samdi og söng fjölda af fyrstu rokksmellum sögunnar og var valinn inn í Frægðarhöll rokksins árið 1998.

Los Angeles Times greinir frá andláti Price. Á meðal þeirra laga sem Lloyd Price söng og gerði vinsæl eru Lawdy Miss Clawdy frá árinu 1952 þar sem Fats Domino spilaði undir á píanó. Einnig má nefna Personality frá 1959 og Stagger Lee frá 1958.

Price lærði að spila á píanó og trompet á meðan hann starfaði í fiskverslun móður sinnar í New Orleans, á þeim tíma þar sem aðskilnaður hvítra og svartra var mikill.

Lloyd Price lýsti því í samtali við fjölmiðla að hann hafi í fyrsta skipti séð hvíta og svarta sameinast í lófataki eftir að lag hans, Lawdy Miss Clawdy, hafi verið spilað á útvarpsstöðvum hvítra.

Price var einnig mikill viðskiptamaður og stofnaði meðal annars útgáfufélag, verktakafyrirtæki og félag sem starfaði í veitingarekstri.

Jacqueline, eiginkona Price, segir að hann hafi látist af völdum sykursýki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×