Innlent

Elsti gígurinn mættur aftur til leiks

Snorri Másson skrifar
Kvikustrókarnir hafa breytt ásýnd eldgossins en þeir eru hættir í bili.
Kvikustrókarnir hafa breytt ásýnd eldgossins en þeir eru hættir í bili. Vísir/Vilhelm

Kvika er aftur farin að leita á yfirborð jarðar upp úr fyrsta gígnum sem myndaðist í gosinu í Fagradalsfjalli. Það er nokkur breyting enda hefur sá gígur verið mjög lítið virkur frá því að virknin færðist yfir í annan gíg skömmu eftir að gosið hófst.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að virknin sé enn mest í stærsta gígnum, en ljóst sé að breyting hafi orðið á virkninni í elsta gígnum.

Önnur mikilvæg breyting sem varð á eldgosinu í morgun er sú að kvikustrókavirknin í gosinu hætti. Kvikustrókur er sprenging sem verður þegar gas brýtur sér leið upp og kvika slettist hátt upp í loft. Kvikustrókarnir hafa stundum drifið á fimmta hundrað metra hæð yfir sjávarmál.

Eftir að þessi virkni minnkaði í eldgosinu í morgun rennur hraunið rólegar upp úr gígunum og fer svo sína leið eftir hraunánni. Það gutlar í rólegri takti í potti gígsins.

„Það hefur orðið einhvers konar breyting á gosopinu og virkni þarna undir en hvað nákvæmlega veldur eru eldfjallafræðingar nú að velta fyrir sér,“ segir Salóme.

Gosið hefur í Fagradalsfjalli frá 19. mars og kvikan hefur breitt úr sér víða í fjallinu, eins og sjá má á gervihnattarmyndum Maxar frá því í gær.

Eldgosið sem hófst í Geldingadal 19. mars hefur breitt úr sér.MAXAR

Tengdar fréttir

Hættusvæðið í kringum gosið stækkað

Allt að fimmtán sentimetra hraunmolar hafa skotist upp úr öflugasta gígnum í Geldingadölum eftir að gosvirknin breyttist. Hættusvæðið verður því stækkað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×