Innlent

Lög­reglan leitar bif­hjóla­níðings

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Slysið varð í Elliðaárdal í gær. 
Slysið varð í Elliðaárdal í gær.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar bifhjólaökumanns sem ók á konu á reiðhjóli í Elliðaárdal á fjórða tímanum í gær. Konan var að hjóla á göngustíg norðan Stekkjarbakka beint fyrir neðan Skálará þegar bifhjólamaðurinn ók á hana.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu nam ökumaður hjólsins staðar stuttlega á vettvangi til að taka upp brak úr bifhjólinu en ók því síðan áfram eftir göngustígnum án þess að kanna hvert ástand konunnar væri. Hún var flutt á slysadeild eftir áreksturinn og reyndist hafa handleggsbrotnað.

Í tilkynningu segir að við atvik eins og þetta sé nauðsynlegt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist eða skemmdir orðið. Þá sé áríðandi að tilkynna mál til lögreglu ekki síst þar sem áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.

Lögregla óskar eftir því að ökumaður bifhjólsins gefi sig fram. Aðrir sem gætu hafa orðið vitni að slysinu er einnig beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 eða senda tölvupóst á sigrun.jonasdottir@lrh.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×