Meistara­deildar­sæti Leicester í hættu eftir af­hroð gegn New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Callum WIlson skoraði tvö af fjórum mörkum Newcastle í kvöld.
Callum WIlson skoraði tvö af fjórum mörkum Newcastle í kvöld. EPA-EFE/Michael Regan

Newcastle United vann ótrúlegan 4-2 útisigur á Leicester City í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Leicester City hefur átt Meistaradeildarsætið víst nær allt tímabilið en allt í einu virðist það í hættu.

Lánsmaðurinn Joseph Willock kom gestunum yfir á 22. mínútu og tólf mínútum síðar tvöfaldaði varnarmaðurinn Paul Dummett forsytu Newcastle. Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik.

Callum Wilson skoraði tvívegis í síðari hálfleik og staðan því orðin 4-0 þegar Marc Albrighton kom Leicester City loks á blað. Kelechi Iheanacho minnkaði muninn í 4-2 áður en leiktíminn rann út en nær komust heimamenn ekki. 

Newcastle United því allt í einu komið upp í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 39 stig að loknum 35 leikjum.

Leicester City er enn í 3. sæti en aðeins með tveimur stigum meira en Chelsea sem á leik til góða. Liðin þar fyrir neðan: West Ham United, Tottenham Hotspur og Liverpool eiga öll leiki til góða.

Gætu þau því sett mikla pressu á lærisveina Brendan Rodgers sem mætir Manchester United á Old Trafford á þriðjudag.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.