Innlent

Ókeypis tíðavörur í Skagafirði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Tíðarvörunar verða ókeypis frá haustinu 2021 í Skagafirði fyrir ungmenni í sveitarfélaglinu.
Tíðarvörunar verða ókeypis frá haustinu 2021 í Skagafirði fyrir ungmenni í sveitarfélaglinu. Aðsend

Mikil ánægja er í Sveitarfélaginu Skagafirði með þá ákvörðun byggðarráðs að boðið verði upp á fríar tíðavörur fyrir ungmenni í grunnskólum og félagsmiðstöðvum í Skagafirði frá næsta hausti.

Það var Álfhildur Leifsdóttir, sem situr í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir VG og óháð í minni hlutanum, sem lagði fram tillöguna í byggðarráði og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

„Já, ég mætti á fund með nokkrum miðaldra karlmönnum í byggðarráði, sem tóku svona ljómandi vel í þetta drengirnir. Þeim þótti þetta bara jafn sjálfsagt og mér. Þetta er mjög gleðilegt en þetta er þó ekki nýtt af nálinni. Tillagan kemur upphaflega frá fulltrúa í ungmennaráði á höfuðborgarsvæðinu, Sögu Maríu Sæþórsdóttur og svo var þetta tekið upp í nokkrum flokkum, meðal annars hjá Vinstri grænum í borginni, höfuðborginni núna í febrúar og samþykkt þar,“ segir Álfhildur.

Álfhildur sem er grunnskólakennari á Sauðárkróki segir málefni tíðavara of mikið feimnismál.

„Þetta er ekki alltaf tímasett hvenær stúlkur fara á blæðingar. Það getur aukið á kvíða í skólanum þegar þetta gerist fyrirvaralaust og það eru ekki tíðavörur meðferðis.“

Álfhildur segir að kostnaður sveitarfélagsins sé óverulegur vegna málsins, hér sé bara um sjálfsagða þjónustu að ræða. Hún hvetur þau sveitarfélög, sem eru ekki með ókeypis tíðavörur í dag fyrir sín ungmenni að drífa í því að koma því í gegnum stjórnkerfið.

En eru unglingsstúlkur í Skagafirði ekki ánægðar með framtak sveitarfélagsins?

„Jú, ég hugsa það, þetta verði bara þægilegra fyrir þær, að þetta sé svona sjálfsagt og feimnislaust aðgengi að þessu,“ segir Álfhildur alsæl með tillögu sína, sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í byggðarráði.

Álfhildur Leifsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Sveitarfélaginu Skagafirði, sem lagði tillöguna fram um fríar tíðavörur fyrir ungmenni í sveitarfélaginu.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.